Markmiðið að gera enn betur á næsta ári

Hrafnhildur tekur við viðurkenningu í kvöld.
Hrafnhildur tekur við viðurkenningu í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er alveg í skýjunum með þetta,“ sagði sundkonan Hrafn­hild­ur Lúth­ers­dótt­ir í samtali við mbl.is eftir að íþróttamaður ársins árið 2015 hafði verið krýndur í kvöld. Hrafnhildur hafnaði í þriðja sæti í kjörinu en hún náði frábærum árangri á árinu sem senn er á enda. 

Önnur sundkona, Eygló Ósk Gústafsdóttir er íþróttamaður ársins árið 2015. „Eygló er auðvitað búin að eiga frábært ár og á þetta því fyllilega skilið,“ sagði Hrafnhildur um samherja sinn í íslenska landsliðinu í sundi.

Hrafnhildur komst tvisvar í úrslit á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug sem fór fram í Kazan í Rússlandi í sumar. Hún hafnaði í sjöunda sæti í 50 metra bringusundi og og sjötta sæti í 100 metra bringusundi. Einnig náði hún ólympíulágmörkum í sumar og setti fjölda Íslandsmeta.

Aðspurð hvað standi upp úr á þessu eftirminnilega ári segir hún að það sé erfitt að líta framhjá Rússlandsferðinni. „Þetta var frábært sumar en ég bjóst alls ekki við því að komast tvisvar í úrslit á HM, þannig að það var rosalega skemmtilegt. Mér þykir gaman að ná svona árangri svo stuttu fyrir Ólympíuleika því þá get ég staðið mig enn betur þar.“

Hrafnhildur, Eygló og Anton Sveinn Mckee hafa náð lágmörkum fyrir Ólympíuleikana sem fara fram í Ríó í Brasilíu á næsta ári. Hrafnhildur glottir þegar hún er spurð hvort hana dreymi um að koma með verðlaun frá Brasilíu.

„Markmið er að komast í úrslit í mínum greinum og vonandi gera enn betur. Auðvitað væri best að koma með medalíu heim.“

Hrafnhildur komst í úrslit í tveimur greinum á HM í …
Hrafnhildur komst í úrslit í tveimur greinum á HM í Kazan í sumar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert