Chambers í leit að norðurljósum

Dwain Chambers situr fyrir svörum á ráðstefnu í HR á …
Dwain Chambers situr fyrir svörum á ráðstefnu í HR á fimmtudagskvöldið. Ljósmynd/spormyndir

Dwain Chambers keppir á Reykjavíkurleikunum í dag. Englendingurinn mun spretta úr spori í 60 metra hlaupi en í þeirri grein hefur hann bæði orðið heims- og Evrópumeistari í gegnum tíðina. 

Mbl.is spjallaði stuttlega við Chambers að lokinni ráðstefnu í HR á fimmtudagskvöldið þar sem hann hafði svarað ýmsum spurningum um sinn feril sem spretthlaupari. Chambers var hinn almennilegasti og ákveðinn í því að láta gott af sér leiða á mótinu en hann hefur vitaskuld náð mun lengra en aðrir keppendur í frjálsum á leikunum. 

„Ég hlakka til að keppa. Þetta mót hér á Íslandi passaði vel inn í dagatalið hjá mér. Er það nógu snemma á árinu til þess að undirbúa fyrir árið með því að komast í stutta keppni. Ég get þá séð hvar ég stend á þessum tímapunkti og unnið út frá því. Ég hef hug á því að komast í landslið Bretlands fyrir heimsmeistaramótið innanhúss í mars. Auk þess er áhugavert að keppa á nýjum slóðum og vonandi fæ ég tækifæri til að sjá norðurljósin,“ sagði Chambers og hló. „Það lítur víst ekkert allt of vel út en maður veit aldrei. Ég held í vonina,“ bætti Chambers við en hann tók sér frí frá keppni að mestu leyti á síðasta ári til að hlaða rafhlöðurnar. Hann stefnir að því að vinna sér inn keppnisrétt í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó. 

Spurður um hvort hann kannist við einhverja íslenska íþróttamenn sagði hann svo ekki vera. Alla vega mundi hann ekki eftir neinum á því augnabliki. „Nei reyndar ekki. Vonandi verður enginn fyrir vonbrigðum með það. Ég ætti kannski að þekkja einhverja íslenska íþróttamenn en ég mun bæta úr því um helgina og kynnast eins mörgum og ég get. Ég hef hins vegar lesið töluvert í sagnfræði og þekki söguna ágætlega. Ég veit að Björk er héðan og hef hlustað á tónlist hennar. Ég held að marg gott hafi komið frá Íslandi og ég vonast eftir því að geta hjálpað frjálsum íþróttum á Íslandi að komast í hærri gæðaflokk,“ sagði Dwain Chambers við mbl.is. 

Chambers keppir í 60 metra hlaupi í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í dag. Undanrásir hefjast klukkan 13:15 og úrslitahlaupið klukkan 14:25

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert