Hafdís og Arna unnu verðlaun á NM

Hafdís Sigurðardóttir varð önnur í langstökki á NM í Svíþjóð …
Hafdís Sigurðardóttir varð önnur í langstökki á NM í Svíþjóð í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hafdís Sigurðardóttir og Arna Stefanía Guðmundsdóttir unnu til verðlauna á Norðurlandamótinu í frjálsíþróttum sem fram fór í Växjö í Svíþjóð í dag. Hafdís hlaut silfurverðlaun í langstökki og Arna Stefanía vann bronsverðlaun í 400 m hlaupi. Aníta Hinriksdóttir varð Norðurlandameistari í 800 m hlaupi eins og greint var frá fyrr í dag. 

Hafdís stökk 6,33 m í langstökki í síðustu tilraun og tryggði sér þar með bronsverðlaunin. Hún var nokkuð frá eigin Íslandsmeti. Langstökkið vannst á stökki upp á 6,52 metra.

Arna Stefanía kom í mark þriðja í 400 m hlaupi á 54,48 sekúndum sem er eftir því sem næst verður komist hennar besti tími í greininni innandyra. Arna Stefanía vann einnig bronsverðlaun í 4x200 m boðhlaupi í sameiginlegri sveit Íslands og Danmerkur.

Þórdís Eva Steinsdóttir hafnaði í áttunda sæti í 200 m hlaupi á 24,78 sekúndum.

Hulda Þorsteinsdóttir náði sér ekki á strik í stangarstökki og felldi í þrígang byrjunarhæð, 3,72 metra.

Óðinn Björn Þorsteinsson varð í fjórða sæti í kúluvarpi með 18,23 metra. Guðni Valur Guðnason hafnaði í áttunda sæti. Hann varpaði lengst 16,82 metra.

Kolbeinn Höður Gunnarsson kom sjöundi í mark í 200 m hlaupi á 21,84 sekúndum.

Þorsteinn Ingvarsson varð í áttunda sæti í langstökki. Hann stökk lengst 7,14 metra en einnig 7,11 og 7,04.

Arna Stefanía Guðmundsdóttir.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert