Skíðamaðurinn Jóhann Þór Hólmgrímsson vann til tveggja bronsverðlauna á mótum í Bandaríkjunum á dögunum en Jóhann er nú kominn heim eftir vetrardvöl vestra þar sem hann hefur æft og keppt af krafti í sitjandi flokki alpagreina.
Jóhann keppti á dögunum í tveimur mótum samkvæmt vef Íþróttasambands fatlaðra. Annars vegar US Nationals þar sem hann fékk bronsverðlaun í svigi og hafnaði í 10 sæti í stórsvigi. Einnig keppti hann í IPC Loon 2016 mótinu og fékk aftur brons auk þess að hafna í 9 sæti í stórsvigi.
Samkvæmt því sem fram kemur hjá ÍF hefur Jóhann tekið stórstígum framförum í vetur og er líklegur til að vinna sig inn á næstu Vetrarólympíumót fatlaðra en í Sochi árið 2014 varð Jóhann fyrsti íslenski karlinn sem keppir á leikunum í alpagreinum skíðaíþrótta.