Tap fyrir Belgíu eftir vítakeppni

Frá leik liðanna í Jaca í dag.
Frá leik liðanna í Jaca í dag. mbl.is

Ísland og Belgía áttust við í fyrsta leik A-riðils 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Jaca á Spáni. Úr varð hörkuleikur en Belgía hafði betur eftir framlengdan leik og vítakeppni 5:4. Ísland fær því eitt stig en Belgía tvö.  

Mörk Íslands: Robbie Sigurðsson 2, Andri Helgason, Björn Róbert Sigurðarson. 

Maður leiksins hjá Íslandi: Robbie Sigurðsson.

Ísland komst í 2:0 eftir frábæra byrjun en Belgarnir náðu að jafna áður en fyrsta leikhluta var lokið. Ísland komst aftur yfir 3:2 en forskotið varði einungis í tæpar tvær mínútur. Þá komu tvö mörk frá Belgum á hálfri mínútu eða svo. Staðan þá 4:3 fyrir Belgíu og þannig stóð allt þar til einungis 23 sekúndur voru eftir en þá jafnaði Björn Róbert Sigurðarson leikinn og tryggði Íslandi þar sem stig og jafntefli í venjulegum leiktíma. 

Bæði lið fengu færi í framlengingu til að tryggja sér sigur en tókst ekki. Úr varð því að skera þurfti úr um úrslit í vítakeppni. Markvörður Belga varði öll þrjú víti Íslands frá Robbie Sigurðssyni, Emil Alengård og Birni Róberti. Snorri Sigurbergsson varði tvö víti Belga en úr einu skoruðu Belgarnir og tryggðu sér því aukastigið sem í boði var.

Að leiknum loknum var Robbie Sigurðsson valinn besti leikmaður Íslands í leiknum af íslenska þjálfarateyminu. Hann skoraði tvívegis í sínum fyrsta landsleik fyrir Ísland. 

Í riðlinum leika einnig Spánn, Holland, Serbía og Kína. Allir leika við alla á einni viku og efsta liðið vinnur sér sæti í 1. deild að ári en neðsta liðið fellur niður í B-riðil 2. deildar. 

Vítakeppnin:

6. víti: Björn Róbert varð að skora til að halda Íslandi inni í leiknum en markvörður Belga varði frá honum. Belga sigraði 5:4 eftir vítakeppni. 

5. víti: Belgar ná ekki að skora. Snorri varði aftur. Enn er von. 5:4 fyrir Belgíu. 

4. víti: Varið frá Emil. Hann fór erfiða leið að þessu. 5:4 fyrir Belgíu. 

3. víti: Snorri varði. Vel gert. 5:4 fyrir Belgíu. 

2. víti: Markvörður Belga ver frá Robbie Sigurðssyni. 5:4 fyrir Belgíu. 

1. víti: Belgar eru á undan í vítakeppninni. Skora örugglega. Staðan er 5:4 fyrir Belgíu samanlagt. 

60+5 mín: Staðan er 4:4. Framlengingu er lokið. Nú tekur við vítakeppni. Þrjú víti á hvort lið. 

60+4 mín: Staðan er 4:4. 90 sekúndur eftir. Jafnt í liðum. 

60+3 mín: Staðan er 4:4. Emil var aðgangsharður í tvígang en Belgarnir sáu við honum. 

60+2 mín: Staðan er 4:4. Íslendingar héldu út 3 á móti 4 í mínútu og nú fékk einn Belginn brottvísun. Nú eru þrír útileikmenn gegn þremur. Fækkað er um einn í framlengingu til að auka líkur á marki og svo er sitt hvor brottvísunin í gangi. 

60. mín: Venjulegum leiktíma er lokið. Staðan er 4:4. Liðin fá sitt hvort stigið en berjast um aukastigið í framlengingu. Þar getur gullmark ráðið úrslitum. Ef ekki er skorað þá er gripið til vítakeppni. Ingvar fyrirliði fékk brottvísun þegar 10 sekúndur voru eftir og er utan ísins. 

60. mín: Mark! Staðan er 4:4. Jáááááááááááá. Björn Róbert Sigurðarson jafnar eftir þunga sókn þegar 23 sekúndur eru eftir. Belgar taka leikhlé. Markvörður Belga hafði áður varið frábærlega frá Robin Hedström sem fékk færi beint fyrir framan markið. Þung sókn en skilaði sem betur fer marki. Björn var hægra megin við markið og náði að koma pökknum rétta leið. Stoðsendinguna fær Andri Helgason. 

58. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Íslenskt jöfnunarmark virðist ekki vera í spilunum. Alla vega ekki eins og sakir standa. 

55. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Ekki nógu mikið bit í power play íslenska liðsins í þessum fyrsta leik. Menn virðast þurfa meiri tíma til að slípa það til. 

53. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Brottvísun á Belga enda óþarfa brot á Snorra eftir að hann greip pökkinn. Robin las vel yfir Belganum. Kom þetta vonandi blóðinu á hreyfingu hjá okkar mönnum. Þeir fá nú tækifæri til að nýta sér liðsmuninn á næstu tveimur mínútum. 

52. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Eftir frekar rólegan kafla í leiknum kom þung íslensk sókn. Íslenska liði tjaldaði um tíma fyrir framan mark Belgíu en það dugði ekki til. Skotin dundu á markinu en markvörður Belga stóð vaktina vel og náði til dæims að komast fyrir skot Hafþórs Sigrúnarsonar af stuttu færi. Orri Blöndal átti einnig fast skot af löngu færi en rétt framhjá. 

46. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Íslendingar vörðust vel manni færri. Enn er möguleiki á sigri en næsta mark þarf að vera íslenskt. 

42. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Andri Helga fær brottvísun. Nú mega Belgarnir ekki skora. 

42. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Emil fékk dauðafæri en markvörður Belga varði frábærlega. 

41. mín: Síðasti leikhlutinn er hafinn. Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. 

Emil Alengård og Birkir Árnason í leik á móti Belgum. …
Emil Alengård og Birkir Árnason í leik á móti Belgum. Emil hefur verið lykilmaður í sóknarleik Íslands undanfarin ár en Birkis nýtur ekki við að þessu sinni þar sem hann er með slitið krossband. mbl.is/Ómar Óskarsson

40. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Öðrum leikhluta er lokið. Útlitið er ekki nægilega gott fyrir síðasta leikhlutann. Belgarnir eru beittari og nýta marktækifærin betur. Vonandi á íslenska liðið nokkuð inni í síðasta leikhlutanum. Róbert Freyr Pálsson fékk gott skotfæri þegar 15 sekúndur voru eftir en belgíski markvörðurinn sá við honum. Íslendingar verða manni fleiri fyrstu 15 sekúndurnar í síðasta leikhlutanum. 

39. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Belgar fá brottvísun í tvær mínútur. 1,45 sek eftir af leikhlutanum. Nú vil ég sá gott power play frá okkar mönnum. Væri ákjósanlegt að jafna fyrir síðasta leikhlutann. 

35. mín: Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Virkilega góð sókn íslenska liðsins en Belgar sluppu með skrekkinn. Andri Helga átti skot sem var varið og Björn Róbert náði frákastinu og átti fínt skot sem hafnaði í stönginni. 

32. mín: Mark! Staðan er 4:3 fyrir Belgíu. Tvö mörk Belga á liðlega hálfri mínútu. Er leikur íslenska liðsins að hrynja? Bryan Kolodziejczyk kemur Belgum yfir. Komst upp að marki Íslands vinstra megin og þrumaði pökknum í hægra hornið. 

32. mín: Mark! Staðan er 3:3. Ja hérna. Ekki var Ísland lengi með forystu. Ben Vercammenn jafnar strax fyrir Belgíu. 

30. mín: Mark! Staðan er 3:2. Skyndisókn og mark. Robbie vann pökkinn af varnarmanni Belga við miðjan völlinn. Keyrði fram og náði að koma skoti á markið þrátt fyrir að aftasti maður andstæðingana næði að trufla hann. Pökkurinn lak undir markvörð Belga og í markið. Vel gert Robbie Sigurðsson (Stefánsson). Tvö mörk frá honum og þetta gæti reynst mjög mikilvægt því íslenska liðið hefur ekki leikið neitt sérstaklega vel síðustu tuttugu mínúturnar eða svo eftir frábæra byrjun. 

28. mín: Staðan er 2:2. Íslendingar héldu það út að vera manni færri og gerðu það vel en power play Belgana virðist vera nokkuð gott. Okkar menn þurfa að gæta sín á því að fá ekki brottvísanir að óþörfu. 

26. mín: Staðan er 2:2. Nákvæmlega ekkert kom út úr power play íslenska liðsins og tókst aldrei að setja Belgana undir neina pressu. Andri Helgason var nú að fá brottvísun og íslenska liðið þarf því að verjast skynsamlega næstu tvær mínúturnar. 

23. mín: Staðan er 2:2. Belgar fá tveggja mínútna brottvísun. Þetta þurfa Íslendingar að nýta. 

21. mín: Staðan er 2:2. Annar leikhluti er hafinn. 

20. mín: Staðan er 2:2 Fyrsta leikhluta er lokið. Íslendingar komust í 2:0 snemma en misstu niður forskotið. Bráðfjörugur fyrsti leikhluti. Alger andstæða leiksins þegar þessar þjóðir mættust í fyrsta leik í Reykjavík í fyrra og mörkin létu bíða eftir sér.

19. mín: Mark! Staðan er 2:2. Belgar eru búnir að vinna upp forskotið. Snorri varði skot en Maxime Pellegrims náði frákastinu og skoraði. Belgar voru ekki nema hálfa mínútu að nýta sér liðsmuninn í power play. 

18. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Falur Guðnason fær aðra brottvísun. Nú þarf íslenska liðið að verjast og halda markinu hreinu út leikhlutann. 

12. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Belgar minnka muninn. Hröð sókn þar sem Ben van den Bogaert gaf fyrir mark Íslands og Yoren de Smet var óvaldaður og skoraði. 

9. mín: Staðan er 2:0. Falur Guðnason var að fá fyrstu brottvísun Íslands og nú gefst Belgum færi á að komast inn í leikinn. 

7. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Ekki tók það Robbie Sigurðsson langan tíma að skora fyrir íslenska landsliðið eða aðeins tæplega sjö mínútur. Fylgdi á eftir eigin skoti og mokaði pökknum í markið af stuttu færi. Belgar voru nýbúnir að fá manninn sinn inn á úr brottvísun og Ísland var nýbúið að skipta nýrri línu inn á eftir power playið. Þá héldu Belgar ef til vill að þeir gætu aðeins slakað á en var refsað um leið. 

6. mín: Staðan 1:0. Belgar fengu fyrstu brottvísun leiksins og Íslendingar náðu að setja þá undir ágæta pressu. Skotunum rigndi á mark Belgíu en inn fór pökkurinn ekki í þetta skiptið. 

3. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Íslendingar byrja leikinn af miklum krafti og varnarmaðurinn Andri Helgason kom Íslandi yfir strax á 3. mínútu. Fékk pökkinn frá Róberti Páls og var hægra megin fyrir innan bláu línuna. Lét að sjálfsögðu vaða á markið og í fjærhorninu endaði pökkurinn. Óskabyrjun. 

2. mín: Leikurinn er hafinn. Robbie var strax aðgangsharður í sínum fyrsta landsleik og skaut í utanverðina stöngina en reyndar úr mjög þröngu færi. 

Kl 11:00. Menn eru aðeins á eftir áætlun hérna á Spáni en leikurinn ætti að hefjast eftir 3 mínútur eða svo. 

Kl 10:50. Robbie Sigurðsson leikmaður SR leikur í dag sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland. Hann á íslenskan föður en þurfti að spila á Íslandi í tvö ár til að verða löglegur með íslenska liðinu þar sem hann fæddist og ólst upp í Bandaríkjunum. Reglur Alþjóða íshokkísambandsins kveða á um slíkt.

Kl 10:40. Snorri Sigurbergsson byrjar í marki íslenska liðsins í dag eins og í undanförnum landsleikjum. Snorri var einnig í markinu í forkeppni Ólympíuleikanna fyrir áramót. Þá var Dennis Hedström ekki í hópnum en hann hefur verið aðalmarkvörður Íslands í mörg ár. Dennis er nú aftur kominn í hópinn og eru það því nokkur tíðindi að Snorri sé orðinn aðalmarkvörður. Dennis lék fjóra leiki í Laugardalnum í fyrra en Snorri þann síðasta gegn Rúmeníu. 

Kl 10:30. Þjóðirnar hafa mæst þrívegis í HM á síðustu þremur árum eftir að Belgía vann sér sæti í riðlinum. Belgar fóru illa með Íslendinga í fyrsta leik árið 2013 og unnu 4:1 en síðan þá hafa komið tveir íslenskir sigrar. 6:3 í Serbíu 2014 og 3:0 á Íslandi í fyrra eftir jafnan leik þar sem lítið var skorað lengi vel. 

Lið Íslands: Markverðir: Snorri Sigurbergsson, Dennis Hedström. 1. lína: Andri Helgason, Róbert Pálsson, Emil Alengård, Jóhann Már Leifsson, Robin Hedström. 2. lína: Ingþór Árnason, Ingvar Þór Jónsson (fyrirliði), Hafþór Sigrúnarson, Robbie Sigurðsson, Björn Róbert Sigurðarson. 3. lína: Ingólfur Elíasson, Orri Blöndal, Falur Guðnason, Úlfar Andrésson, Andri Már Mikaelsson. 4. lína: Bergur Einarsson, Jónas Breki Magnússon, Hjalti Jóhannsson, Bjarki Jóhannesson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert