Sigur á Kína í markaleik

Úlfar Jón Andrésson í leiknum í dag en hann kom …
Úlfar Jón Andrésson í leiknum í dag en hann kom mikið við sögu. mbl.is

Ísland og Kína áttust við í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Jaca á Spáni og hafði Ísland betur 7:4. Ísland er þá með fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina.

Leikurinn var býsna skrautlegur en Íslendingar höfðu ávallt frumkvæðið. Ísland var yfir 3:2 að loknum fyrsta leikhluta og 5:4 að loknum öðrum leikhluta. Íslenska liðið var yfir 5:2 en hleypti þá Kínverjum aftur inn í leikinn. 

Emil Alengård var valinn maður leiksins hjá Íslandi af þjálfarateyminu en hann skoraði og átti stoðsendingu. Margir aðrir áttu fínan leik en þeir Jóhann Már Leifsson og Björn Róbert Sigurðarson skoruðu tvö mörk hvor, Úlfar Andrésson skoraði og átti stoðsendingu og Róbert „Robbie“ Sigurðsson átti tvær stoðsendingar. 

Ýmis hættumerki sáust í leik íslenska liðsins í dag þrátt fyrir sigurinn og alla vega þrjú af fjórum mörkum Kínverja voru ansi ódýr. Ísland hefur fengið á sig fjögur mörk í hvorum leik og það er ekki vænlegt til árangurs enda á liðið eftir að mæta öflugum liðum. Næsti leikur er á þriðjudaginn gegn Hollandi og verður væntalega sá erfiðasti í riðlinum því Hollendingar féllu niður úr 1. deildinni í fyrra. Vonandi tekst hópnum að slípa betur til leik liðsins en margt gott er að gerast í sóknarleiknum. 

Mörk Íslands: Jóhann Már Leifsson 2, Björn Róbert Sigurðarson 2, Úlfar Jón Andrésson, Robin Hedström, Emil Alengård. 

Maður leiksins hjá Íslandi: Emil Alengård.

Var þetta annar leikur liðanna í riðlinum. Ísland tapaði fyrir Belgíu eftir vítakeppninni í gær en fékk eitt stig fyrir 4:4 jafnteflið í venjulegum leiktíma. Kína sem kom upp úr B-riðlinum tapaði í gær fyrir Spánverjum 2:0. 

60. mín: Leiknum er lokið með þriggja marka sigri Íslands 7:4. Fjörugur leikur eins og tölurnar bera með sér. 

59. mín: Mark! Staðan er 7:4 fyrir Ísland. Björn Róbert Sigurðarson rak smiðshöggið á laglegan samleik hans og Róberts „Robbie“ Sigurðssonar og skoraði með góðu skoti. Þarna gekk power play Íslands upp en Kínverjar voru með mann í refsingu. 

57. mín: Staðan er 6:4 fyrir Ísland. Ég var varla búinn að skrifa síðustu setningu þegar Ingólfur Elíasson fékk brottvísun en Íslendingum tókst að halda markinu hreinu. 

55. mín: Staðan er 6:4 fyrir Ísland. Leikurinn einkennist nú af baráttu. Íslensku leikmennirnir þurfa að gæta þess að láta ekki æsa sig upp í brottvísanir því slíkt gæti gefið Kínverjum færi á því að hleypa spennu í leikinn. 

50. mín: Staðan er 6:4 fyrir Ísland. Tíu mínútur eftir af þessum skrautlega leik. Tveggja marka forskot Íslands hlýtur að duga til sigurs úr því sem komið er. Trúi ekki öðru. 

45. mín: Mark! Staðan er 6:4 fyrir Ísland. Róbert Freyr Pálsson sá að Emil Alengård hafði smá pláss. Kom pökknum á hann og Emil skautaði upp að markinu. Var hægra megin við það og náði að troða pökknum í markið eftir smá gabbhreyfingu. Kínverjar mótmæltu og vildu meina að pökkurinn hafi ekki farið inn en glögglega sást á viðbrögðum Emils að pökkurinn fór inn fyrir. 

41. mín: Síðasti leikhlutinn er hafinn. Staðan er 5:4 fyrir Ísland. Næsta mark þarf að vera íslenskt. Þessi leikur verður að vinnast. Annars gæti fallbarátta orðið hlutskipti liðsins. 

40. mín: Öðrum leikhluta er lokið. Staðan er 5:4 fyrir Ísland. Okkar menn reyndu hvað þeir gátu að skora sjötta markið undir lok leikhlutans en það gekk ekki eftir. Ég get ekki varist þeirri hugsun að mér finnst íslenska liðið töluvert betra en það kínverska en þrjú af fjórum mörkum Kínverja voru afskaplega ódýr. 

36. mín: Mark! Staðan er 5:4 fyrir Ísland. Kínverjar hleypa spennu í leikinn eftir varnarmistök. Aftur munar aðeins einu marki. Róbert Freyr Pálsson átti misheppnaða sendingu sem aftasti maður. Pökkurinn fór beint á Cheng Zhang sem komst einn á móti Dennis og skoraði. Sigurður Sigurðsson aðstoðarþjálfari stappar stálinu í Róbert á bekknum. 

34. mín: Staðan er 5:3 fyrir Ísland. Síðustu mínútur frekar rólegar en Robin átti ágætar skottilraunir. Falur var að fá tveggja mínútna brottvísun og nú þurfa okkar menn að verja markið. Falur þarf að fækka brottvísununum. Þetta er hans þriðja í tveimur leikjum en í riðli sem þessum refsa andstæðingarnir gjarnan í power play. 

28. mín: Mark! Staðan er 5:3 fyrir Ísland. Þetta er nú meiri markaleikurinn. Þung sókn Kínverja. Pökkurinn var kominn út á bláu línuna og mesti sóknarþunginn virtist yfirstaðinn. Þá lét Mingsi Yang vaða á markið frá bláu línunni. Frábært skot sem hafnaði efst uppi í horninu en margir leikmenn skyggðu á útsýnið sem Dennis hafði í markinu. 

25. mín: Mark! Staðan er 5:2 fyrir Ísland. Kínverjar misstu mann út í tveggja mínútna refsingu og var einnig refsað fyrir með marki. Emil Alengård sendi laglega sendingu í gegnum miðja vörnina á Robin Hedström sem smellti pökknum upp í þaknetið af stuttu færi. Fyrsta mark Robins í mótinu en örugglega ekki það síðasta þar sem hann hefur verið drjúgur í markaskorun fyrir Ísland síðustu árin. 

22. mín: Staðan er 4:2 fyrir Ísland. Dennis Hedström byrjaði í makri Íslands í öðrum leikhluta. Hans fyrstu mínútur í mótinu. 

21. mín: Annar leikhluti er hafinn. Mark! Staðan er 4:2 fyrir Ísland. Það tók Björn Róbert Sigurðarson ekki nema 12 sekúndur að skora í öðrum leikhluta. Róbert „Robbie“ Sigurðsson átti stoðsendinguna.

Jóhann Már Leifsson skoraði tvívegis í fyrsta leikhluta gegn Kína.
Jóhann Már Leifsson skoraði tvívegis í fyrsta leikhluta gegn Kína. mbl.is

20. mín: Mark! Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Kínverjar skora þegar 20 sekúndur eru eftir af fyrsta leikhluta. Hrikalegt. Ziyang Zhu komst upp að marki Íslands vinstra megin og skoraði með skoti á nærstöngina. 

18. mín: Mark! Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Mikilvægt að fá þetta mark. Jóhann Már Leifsson er heitur í dag. Fékk pökkinn nokkuð óvænt beint á móti marki Kína. Lét vaða og inn fór pökkurinn en einn varnarmaður stóð fyrir framan Jóhann og skyggði því á útsýni markvarðarins. 

17. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Íslendingar mega gæta sín. Snorri hefur nú varið í tvígang frá Kínverjum í ágætum færum. 

14. mín: Mark! Staðan er 2:1. Kína minnkar muninn strax. Minnir þetta óþægilega á gærdaginn þegar Ísland komst snemma í 2:0 en missti það niður fljótt. Markið leit ekki vel út fyrir Snorra sýndist mér. Tiansing Xia brunaði upp að markinu hægra megin og skaut úr mjög þröngu færi og pökkurinn lak inn með viðkomu í Snorra. 

13. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Úlfar Jón Andrésson bætir við marki fyrir Ísland. Falur Guðnason og Hafþór Sigrúnarson áttu stoðsendingar og eru þetta fyrstu stig þeirra í mótinu. 

12. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Aftur er orðið jafnt í liðum. Snorri varði virkilega vel úr mjög góðu færi þegar Kínverjar voru manni fleiri. 

Robbie Sigurðsson skorar fyrir Ísland gegn Belgíu í gær.
Robbie Sigurðsson skorar fyrir Ísland gegn Belgíu í gær. mbl.is

10. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Okkar menn voru manni fleiri í 70 sekúndur en þá fékk Emil fyrstu brottvísun Íslands. Íslendingar verða því manni færri í rúma mínúta þegar Kína endurheimtir sinn mann. 

9. mín: Staðan er 1:0. Íslendingar reyna að halda pressunni á Kínverjum. Leikmaður Kína var að fá fyrstu tveggja mínútna brottvísun leiksins. Nú er sóknarfæri. 

4. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Jóhann Már Leifsson kemur Íslandi yfir og stimplar sig inn í keppnina. Flott byrjun rétt eins og í gær. Stoðsendingar áttu Úlfar Andrésson og Robin Hedström. 

3. mín: Staðan er 0:0. Gott færi. Robbie átti góða rispu og komst einn gegn markverði en sá kínverski sá við honum. 

Björn Róbert Sigurðarson ógnar marki Belga í gær.
Björn Róbert Sigurðarson ógnar marki Belga í gær. mbl.is

Kl 14:31 Leikurinn er hafinn. Ísland leikur í bláu búningunum í dag en var í þeim hvítu í gær. 

Kl 14:15 Íslendingar og Kínverjar mættust síðasta á ísnum í 2. deild HM í Króatíu árið 2011. Ísland hafði þá betur 5:3. Mörk Íslands í þeim leik skoruðu Egill Þormóðsson 2, Úlfar Jón Andrésson, Andri Már Mikaelsson og Jón Benedikt Gíslason. Úlfar og Andri eru í liðinu í dag en Egill gaf ekki kost á sér og Jón er meiddur.  Liðin mættust hins vegar seint á síðasta ári í forkeppni Ólympíuleikanna og þá vann Ísland öruggan sigur 11:3.

Kl 14:05 Mörk Íslands gegn Belgíu í gær gerðu þeir Róbert „Robbie“ Sigurðsson 2, Andri Helgason og Björn Róbert Sigurðarson. 

Kl 14:00 Sænski landsliðsþjálfarinn Magnus Blårand gerir eina breytingu hvað varðar línurnar. Andri Már Mikaels kemur inn í línuna með Birni Róberti og Robbie í stað hins unga Hafþórs Sigrúnar sem í staðinn verður í línu með Bjarnarmönnunum Fal Guðna og Úlfari. Línan sem Andri kemur inn í skilaði þremur mörkum í leiknum í gær. 

Lið Íslands: Markverðir: Snorri Sigurbergsson, Dennis Hedström. 1. lína: Ingþór Árnason, Ingvar Þór Jónsson (fyrirliði), Andri Már Mikaelsson, Róbert „Robbie“ Sigurðsson, Björn Róbert Sigurðarson. 2. lína: Andri Helgason, Róbert Pálsson, Emil Alengård, Jóhann Már Leifsson, Robin Hedström. 3. lína: Ingólfur Elíasson, Orri Blöndal, Falur Guðnason, Úlfar Andrésson, Hafþór Sigrúnarson. 4. lína: Bergur Einarsson, Jónas Breki Magnússon, Hjalti Jóhannsson, Bjarki Jóhannesson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka