Fanney með silfur á HM og Norðurlandamet

Fanney Hauksdóttir.
Fanney Hauksdóttir. mb.is/Eggert Jóhannesson

Fanney Hauksdóttir hefur lokið keppni á heimsmeistaramótinu í bekkpressu, sem fer fram í Danmörku. Fanney vann til silfurverðlauna, og setti auk þess Norðurlandamet, í -63 kg opnum aldursflokki.

Fanney átti góða innkomu á sínu fyrsta HM í bekkpressu í opnum aldursflokki. Hún var yngsti keppandinn í -63 kg flokki. Í fyrstu lyftu tók hún út 5 kg bætingu á eigin Íslandsmeti með 152,5 kg, en sú þyngd er einnig Norðurlandmet.

Með þeirri lyftu var hún orðin örugg með að komast á verðlaunapall. Henni mistókst tvívegis að lyfta 155 kg. Fanney hafnaði í 2. sæti á eftir hinni reynslumiklu Gunda Fiona Sommer von Bachhaus frá Þýskalandi sem endaði mótið á heimsmeti með 184 kg lyftu.

Viktor Samúelsson (1993) og Viktor Ben Gestsson (1996) áttu báðir góðu gengi að fagna á heimsmeistaramóti unglinga í bekkpressu, sem fram fer í Danmörku. Viktor Samúelsson vann til silfurverðlauna í -120 kg flokki unglinga og Viktor Ben Gestsson vann til bronsverðlauna í +120 kg flokki unglinga.

Viktor Samúelsson fékk opnunurarlyftuna með 285 kg ógilda vegna tæknivillu. Í annarri tilraun lyfti hann öruggum 290 kg. Hann reyndi svo við 317,5 kg í þriðju tilraun, sem reyndist full þungt. Viktor Samúelsson hafnaði í 2. sæti á eftir Kevin Jaeger frá Þýskalandi, sem sigraði með 343,5 kg (heimsmet í opnum flokki).

Viktor Ben Gestsson var lang yngsti keppandinn í +120 kg fl. Hann reyndi við bætingu á Íslandsmeti í opnum aldursflokki með 295 kg í fyrstu tilraun, en fékk hana ekki gilda. Í annarri tilraun tókst honum að klára lyftuna og setti þar með Íslandsmet í opnum aldursflokki. Viktor Ben missti naumlega af silfrinu þegar John Caruso (USA), sem var léttari en Viktor Ben, tók einnig 295 kg. Fyrir mótið átti Viktor Ben best 270 kg og var því bæta sinn persónulega árangur um heil 25 kg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert