Sprettharðasti maður landsins

Ari Bragi Kárason, lengst til vinstri.
Ari Bragi Kárason, lengst til vinstri.

Nítján ára gamalt Íslandsmet féll um helgina þegar Ari Bragi Kárason sló lífseigt met Jóns Arnars Magnússonar í 100 metra hlaupi. Með öðrum orðum má þá segja að Ari sé sprettharðasti maður landsins frá því að mælingar hófust hér á sögueyjunni.

Íslendingar hafa ekki látið sérlega mikið að sér kveða í spretthlaupum á alþjóðlegum vettvangi, nánast frá því á sjötta áratugnum. En Íslandsmetið í hinni vinsælu grein 100 metra hlaupi, er nú ekki lengur í eigu tugþrautarkappa. Jón Arnar er reyndar meiri íþróttamaður en gengur og gerist en sérhæfði sig þó ekki í spretthlaupum.

Nafn Ara Braga hefur ekki verið áberandi í umræðunni um þann uppgang sem verið hefur í frjálsum íþróttum hérlendis á síðustu árum. Ari er 27 ára gamall og hefur keppt fyrir FH síðustu tvö árin. Áður var hann hjá ÍR en hefur einnig spreytt sig í öðrum íþróttum svo sem ólympískum lyftingum og Crossfit. Ari setti metið í Kaplakrika og hljóp vegalengdina á 10,52 sekúndum.

Heppilegar aðstæður

Hægviðrið undanfarið er hlaupurum hagstætt og einnig þau hlýindi sem verið hafa. „Hérna á Íslandi erum við rosalega háð aðstæðum. Tímarnir sveiflast eftir því hvort hér er meðvindur eða mótvindur. Aðstæður hafa verið mjög góðar upp á síðkastið. Hann átti þetta alveg inni og jafnvel meira,“ sagði Einar Þór Einarsson, þjálfari Ara hjá FH, þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær.

Sjá greinina í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert