Nítján ára gamalt Íslandsmet féll um helgina þegar Ari Bragi Kárason sló lífseigt met Jóns Arnars Magnússonar í 100 metra hlaupi. Með öðrum orðum má þá segja að Ari sé sprettharðasti maður landsins frá því að mælingar hófust hér á sögueyjunni.
Íslendingar hafa ekki látið sérlega mikið að sér kveða í spretthlaupum á alþjóðlegum vettvangi, nánast frá því á sjötta áratugnum. En Íslandsmetið í hinni vinsælu grein 100 metra hlaupi, er nú ekki lengur í eigu tugþrautarkappa. Jón Arnar er reyndar meiri íþróttamaður en gengur og gerist en sérhæfði sig þó ekki í spretthlaupum.
Nafn Ara Braga hefur ekki verið áberandi í umræðunni um þann uppgang sem verið hefur í frjálsum íþróttum hérlendis á síðustu árum. Ari er 27 ára gamall og hefur keppt fyrir FH síðustu tvö árin. Áður var hann hjá ÍR en hefur einnig spreytt sig í öðrum íþróttum svo sem ólympískum lyftingum og Crossfit. Ari setti metið í Kaplakrika og hljóp vegalengdina á 10,52 sekúndum.
Hægviðrið undanfarið er hlaupurum hagstætt og einnig þau hlýindi sem verið hafa. „Hérna á Íslandi erum við rosalega háð aðstæðum. Tímarnir sveiflast eftir því hvort hér er meðvindur eða mótvindur. Aðstæður hafa verið mjög góðar upp á síðkastið. Hann átti þetta alveg inni og jafnvel meira,“ sagði Einar Þór Einarsson, þjálfari Ara hjá FH, þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær.
Sjá greinina í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.