Arna Stefanía Guðmundsdóttir, hlaupari úr FH, sigraði með yfirburðum í 400 metra grindahlaupi á móti sem fram fór í Karlstad í Svíþjóð í kvöld. Arna Stefanía hljóp á tímanum 58,16 sekúndum. Hún hefur hlaupið best á 57,14 sekúndum, en tíminn hennar í kvöld er hennar sjötti besti.
Arna Stefanía er á miklu skriði þessa dagana, en hún var sigursælasti keppandinn á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Akureyri um síðustu helgi þar sem hún nældi sér í fimm gullverðlaun. Arna Stefanía sigraði í 400 metra hlaupi, 100 metra grindahlaupi, 200 metra hlaupi og var svo í sigurliði í tveimur boðhlaupssveitum FH.