Kári og Margrét badmintonfólk ársins

Kári Gunnarsson og Margrét Jóhannsdóttir, badmintonfólk ársins 2016.
Kári Gunnarsson og Margrét Jóhannsdóttir, badmintonfólk ársins 2016. Ljósmynd/badminton.is

Íslandsmeistararnir Kári Gunnarsson og Margrét Jóhannsdóttir hafa verið útnefnd badmintonfólk ársins 2016 af badmintonsambandi Íslands.

Í rökstuðningi badmintonsambandsins fyrir valinu segir:

Kári Gunnarsson, badmintonmaður ársins

Badmintonmaður ársins 2016 er Kári Gunnarsson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Kári er Íslandsmeistari í einliðaleik fimmta árið í röð og í tvíliðaleik ásamt Atla Jóhannessyni þriðja árið í röð.  

Kári hefur verið mikilvægur í landsliði Íslands í badminton og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla í landsleikjum. Hann var í unglingalandsliðum Íslands áður og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári hefur spilað 17 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Kári Gunnarsson varð Íslandsmeistari í einliðaleik fimmta árið í röð.
Kári Gunnarsson varð Íslandsmeistari í einliðaleik fimmta árið í röð. Ljósmynd/badminton.is

Kári var alinn upp í Danmörku og spilaði með Københavns Badminton Klub en fluttist til Íslands í lok ársins 2015. Kári spilaði hérlendis á vorönn 2016. Hann vann einliðaleik í öllum mótum sem hann tók þátt í hérlendis. Hann varð bæði Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í einliða- og tvíliðaleik á þessu ári.

Kári tók þátt í Evrópukeppni einstaklinga í Frakklandi í apríl en heimslistinn ræður hverjir öðlast keppnisrétt.

Hann fluttist svo til San Fransisco í haust en þar er hann í skiptinámi frá Kaupmannahafnar-háskóla í meistaranámi í stjórnmálafræði. Hann hefur undanfarnar vikur æft í Ameríku og keppt.

Margrét Jóhannsdóttir, badmintonkona ársins

Badmintonkona ársins 2016 er Margrét Jóhannsdóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Margrét Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í einliðaleik í fyrsta sinn á …
Margrét Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í einliðaleik í fyrsta sinn á árinu. Ljósmynd/badminton.is

Margrét varð tvöfaldur Íslandsmeistari í badminton á árinu 2016, í einliðaleik og tvenndarleik með Daníel Thomsen. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Margrétar í einliðaleik en hún vann Tinnu Helgadóttur, sem hefur hampað titlinum fjórum sinnum, í úrslitum. Hún hefur nú orðið Íslandsmeistari í tvenndarleik tvö ár í röð. Margrét hefur unnið öll mót innan mótaraðar Badmintonsambandsins, sem hún hefur tekið þátt í,  á árinu. Auk þess er hún hæst á styrkleikalista sambandsins í tvíliða- og tvenndarleik.

Margrét var færð í meistaraflokk aðeins 16 ára gömul en hún á að baki fjöldann allan af Íslandsmeistaratitlum í unglingaflokki, sem og í A- og B-flokki.

Hún hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd um árabil og spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2013, þá 18 ára gömul. Margrét á átta A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd. Áður spilaði hún með U17 og U19 unglingalandsliðum Íslands.

Margrét hefur farið hratt upp heimslistann í badminton en listinn byggir á besta árangri tíu móta á síðastliðnum tólf mánuðum. Fyrir ári síðan var hún í 570. sæti en nú er hún í 310. sæti með fimm mót sem hún hefur keppt á og gefa henni stig.

Margrét Jóhannsdóttir er nú í 310. sæti heimslistans.
Margrét Jóhannsdóttir er nú í 310. sæti heimslistans. Ljósmynd/badminton.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert