Vladimir Pútín, forseti Rússlands, kveðst reiður í garð Grigory Rodchenkov en hann var einn af þeim sem ljóstraði upp um skipulagða og ríkisstyrkta lyfjamisnotkun hjá rússnesku íþróttafólki.
Rodchenkov var einn af yfirmönnum hjá lyfjaeftirlitsstofnun Rússlands og viðurkenndi sjálfur að hafa á skipulagðan hátt gefið íþróttafólki árangursbætandi lyf. Upp hefur komið mikið hneyksli þar í landi sem er ítarlega farið yfir í McLaren-skýrslunni svokölluðu, sem Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin (WADA) hefur unnið að.
„Vitiði hvar hann [Rodchenkov] vann áður? Í Kanada. Og hvað ætli hann hafi gert þar? Svo kom hann til Rússlands og tók með sér allan þennan sora,“ sagði Pútín. Hann viðurkenndi þó að Rússland ætti við vandamál að stríða hvað varðar lyfjamisferli, en kallaði eftir því að WADA upphefði vandaðri vinnubrögð. Rússland hefði ekki skapað vandamál lyfjamisnotkunar.
Alþjóðaólympíunefndin hefur nú gefið út að hún muni skima á ný sýni sem voru tekin úr rússnesku íþróttafólki eftir vetrarólympíuleikana í Sotsjí árið 2014 og Ólympíuleikana í London 2012. Grunur leikur á um að kaffi og salt hafi verið notað til þess að spilla rússneskum sýnum og þeim jafnvel skipt út fyrir „hrein“ sýni.
Rússland vann 72 verðlaun á Ólympíuleikunum í London, þar af 21 gullverðlaun. Í Sotsjí unnu rússneskir keppendur til 33 verðlauna, þar af voru 13 gull.