Gylfi íþróttamaður ársins 2016

Gylfi Þór Sigurðsson með minni útgáfuna af verðlaunagripunum sem afhentir …
Gylfi Þór Sigurðsson með minni útgáfuna af verðlaunagripunum sem afhentir eru í kjöri íþróttamanns ársins.

Gylfi Þór Sigurðsson var rétt í þessu útnefndur Íþróttamaður ársins 2016 af Samtökum íþróttafréttamanna en kjörinu var lýst í Hörpu í Reykjavík.

Gylfi hlýtur þessa viðurkenningu í annað skipti en hann varð einnig fyrir valinu árið 2013.

Gylfi átti afar gott ár með Swansea City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hann átti stóran þátt í að bjarga liðinu frá falli með því að skora níu mörk frá áramótum og til vors. Það sem af er yfirstandandi tímabil hefur Gylfi verið yfirburðamaður í liði Swansea, er búinn að skora fimm mörk í deildinni og hefur átt þátt í stórum hluta annarra marka sem liðið hefur skorað.

Hann var ennfremur í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu sem náði sínum besta árangri frá upphafi í sumar þegar það komst í átta liða úrslitin í Evrópukeppninni í Frakklandi. Gylfi lék þar alla fimm leikina frá upphafi til enda og skoraði eitt mark. Þá var hann í fararbroddi í leikjum haustsins í undankeppni heimsmeistaramótsins þar sem íslenska liðið er í toppbaráttu í sínum riðli.

Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona hafnaði í öðru sæti í kjörinu og kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir varð í þriðja sæti.

Endanleg röð í kjörinu og stigatala verður birt hér á mbl.is síðar í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert