Ævintýralegur sigur New England

Leikstjórnandinn frábæri, Tom Brady, og Bill Belichick, sem hefur verið …
Leikstjórnandinn frábæri, Tom Brady, og Bill Belichick, sem hefur verið aðalþjálfari New England Patriots síðan árið 2000, eftir sigurinn í nótt. AFP

New England Patriots sigraði Atlanta Falcons á ævintýralegan hátt í úrslitaleik ameríska fótboltans, Super Bowl – Ofurskálarleiknum, sem svo er kallaður – í Houston í nótt. Eftir mesta viðsnúning og fyrstu framlengingu í sögu úrslitaleikjanna vann New England 34:28. Ekki er ólíklegt að leikurinn í kvöld verði í framtíðinni talinn besti úrslitaleikur sögunnar.

Leikstjórnandi Patriots, Tom Brady, var lengi í gang en þegar kappinn fór að sýna sitt rétta andlit héldu honum engin bönd. Hann hefur nú unnið fimm úrslitaleiki, fleiri en nokkur annar leikstjórnandi í sögu leiksins. Brady var valinn maður leiksins í nótt, MVP eins og Bandaríkjamenn kalla það (Most Valuable Player). Það er í fjórða skipti sem hann hlýtur þá nafnbót í úrslitaleiknum, oftar en nokkur annar.

Ekki er að efa að Tom Brady verður eftir þetta afrek talinn besti leikstjórnandi sögunnar, jafnvel besti leikmaður sögunnar, og Bill Belichick jafnvel besti þjálfari í sögu deildarinnar. Hann hefur verið aðalþjálfari New England Patriots síðan árið 2000 og stýrði liðinu í nótt til meistaratitils í fimmta skipti.

Atlanta byrjaði frábærlega og náði mest 25 stiga forystu í leiknum. Áður hafði sigurlið mest verið 10 stigum undir í úrslitaleik en með stórkostlegri frammistöðu á lokakafla leiksins gerðist hið ótrúlega. New England gerði síðustu 25 stig hefðbundins leiktíma; staðan var 3:28 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta!

Matt Ryan, leikstjórnandi Atlanta Falcons, var frábær í leiknum en …
Matt Ryan, leikstjórnandi Atlanta Falcons, var frábær í leiknum en varð að gera sér tap að góðu. AFP

Frábær byrjun Atlanta

Lið Atlanta virtist koma þjálfurum og leikmönnum New England í opna skjöldu með frábærum varnarleik í fyrri hálfleiknum. Það var nánast sama hvað Tom Brady og hans menn reyndu – Fálkarnir áttu svör við öllu.

Ekkert var skorað í fyrsta leikhluta en Fálkarnir frá Atlanta gerðu tvö snertimörk með stuttu millibili í öðrum leikfjórðungi og bættu við aukastigi í bæði skiptin með vallarmarki. Devona Freeman gerði fyrra snertimarkið, kom Atlanta í 6:0 og Matt Bryant nældi í aukastig með góðu sparki. Austine Hooper gerði seinna snertimarkið og Bryant fékk aftur aukastig. Staðan 14:0. Fálkarnir komust svo í 21:0 eftir að Robert Alford komst inn í sendingu frá Brady, leikstjórnanda Patriots, og hljóp alla leið í mark. Bryant sparkari sá svo enn um að næla í aukastigið.

Fáeinum sekúndum áður en fyrri hálfleik lauk lagaði Patriots stöðuna örlítið – Stephen Gostkowski tryggði liðinu fyrstu þrjú stigin með því að sparka í mark af 41 jards færi.

Atlanta komst í 27:3 um miðjan þriðja leikhluta þegar Tevin Coleman gerði snertimark. Bryant kom svo af bekknum til að sparka og náði í aukastig að vanda.

New England gerði loks snertimark þegar langt var liðið á þriðja leikhlutann. James White hljóp í markið með boltann en sparkari liðsins, Stephen Gostkowkski, sem yfirleitt er mjög öruggur í sínu starfi, sparkaði í stöngina og mistókst að ná í aukastig. Staðan 28:9 í lok leikhlutans.

Gostkowski lagaði stöðuna fyrir Patriots með vallarmarki, 28:12, þegar þriðjungur var liðinn af fjórða og síðasta leikhluta. Þegar sex mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í  10 stig þegar Danny Amendola gerði snertimark eftir góða sendingu Brady og James White gerði í kjölfarið tvö aukastig; staðan orðin 28:20.

Stórkostleg tilþrif Edelmann

New England fékk boltann þegar þrjár og hálf mínúta var eftir nálægt eigin endamarki. Fljótlega náði Julian Edelmann að grípa langa sendingu frá Brady á ævintýralegan hátt – tilþrif sem fara í sögubækurnar! Tæpar tvær mínútur eftir og spennan í hámarki. Tekst Brady og félögum hið ómögulega? Þegar mínúta var eftir gerði James White snertimark og minnkaði muninn í 28:26. Og hið ótrúlega gerðist: Danny Amendola skoraði tvö aukastig og jafnaði! Staðan í fjórða leikhluta þá 19:0!

Leikmenn New England náðu að stöðva Fálkana í síðustu sókninni þannig að staðan var jöfn eftir hefðbundinn leiktíma. Því var í fyrsta skipti í sögunni gripið til framlengingar í Ofurskálarleiknum, Super Bowl.

New England vann hlutkestina fyrir framlenginguna. Liðið byrjaði með boltann, komst hægt og rólega fram völlinn og James White, sem lék gríðarlega vel, skoraði snertimark sem tryggði sigurinn.

Tom Brady hampar Vince Lombardi-verðlaunagripnum, sigurlaununum í úrslitaleik ameríska fótboltans.
Tom Brady hampar Vince Lombardi-verðlaunagripnum, sigurlaununum í úrslitaleik ameríska fótboltans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert