Nokkur met fallin

Ljósmynd/Ungmennafélag Íslands.

Laugardagurinn 5. ágúst hefur verið viðburðaríkur á Unglingalandsmóti UMFÍ. Dagurinn hófst með keppni í sundi, körfu, fótbolta og frjálsum en síðan tók við þrekmót UÍA, keppni í mótorkrossi og fleiri greinum. Kjöraðstæður hafa verið til keppni í mörgum fjölbreyttum greinum á Egilsstöðum, lítill sem enginn vindur og hlýtt í veðri.

Í frjálsum setti Eva María Baldursdóttir (HSK) nýtt unglingalandsmótsmet og setti Íslandsmet í sínum aldursflokki í þrístökki þegar hún stökk 11,42 metra. Gamla unglingalandsmótsmetið var 9,99 metrar en Íslandsmetið 11,33 metrar. Eva verður 14 ára í september. Þá setti Erna Sól Gunnarsdóttir Íslandsmet í gær í kúluvarpi 16-17 ára stúlkna þegar hún kastaði 15,30 metra. Fyrra metið var 15,14 metrar.

Ljósmynd/Ungmennafélag Íslands.

Keppt í körfu og kökuskreytingum  

Keppt verður í níu greinum sunnudaginn 6. ágúst. Dagurinn byrjar með keppni í götuhjólreiðum, körfu og fótbolta. Eftir það taka við keppni í frjálsum, ólympískum lyftingum, upplsetri skák og kökuskreytingum.
Keppni í kökuskreytingum hefur vakið mikla eftirtekt enda er það ný grein á Unglingalandsmóti UMFÍ. Nýbreytnin hefur mælst vel því meira en 100 keppendur eru skráðir til leiks og má búast við því að margar fallega skreyttir tertubotnar skili sér í lok dags en keppnin fer fram í Egilsstaðaskóla kl. 16.
Skotfimi var ein af greinunum í dag og má hér …
Skotfimi var ein af greinunum í dag og má hér sjá einn keppenda sem tók þátt. Ljósmynd/Ungmennafélag Íslands.
„Við skulum halda í ungmennafélagsandann eina og sanna, ræktun lýðs og lands. Það er svo mikilvægt að setja sér markmið og vinna saman, ekki bara í íþróttum heldur lífinu öllu,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Hann sagði Unglingalandsmót endurspegla að mikilvægt sé að setja sér markmið og vinna saman, ekki bara í íþróttum heldur lífinu öllu.

„Við erum samfélag þar sem allir eiga að geta spreytt sig, skarað fram úr ef vel gengur en hlýtt um leið sanngjörnum reglum í heiðarlegri keppni. Og bjáti eitthvað á hjá einum eiga aðrir að koma til hjálpar án þess að telja það eftir sér,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson.
Ljósmynd/Ungmennafélag Íslands.

Foreldrarnir til fyrirmyndar   

Foreldrar þátttakenda á Unglingalandsmótinu hafa verið virkir og margir tilbúnir til að leggja hönd á plóg til að gera gott mót betra. Hér að ofan má sjá tvo feður, þá Ívar Ingimarsson og Guðgeir Sigurjónsson, leikmann Hattar á Egilsstöðum. Ívar, sem er hægra megin á myndinni, er fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og var atvinnumaður lengi með Reading í enska boltanum.
Ljósmynd/Ungmennafélag Íslands.

Margs konar afþreying í boði í dag  

Margt skemmtilegt er hægt að gera í dag fyrir þá sem eru ekki að keppa allan liðlangan daginn.

Dagskráin:

7:30 – 8:30 Hláturjóga og morgunsprell á Tjaldsvæði UMFÍ
10:00 – 11:00 Fótboltamót, stúlkur 8-10 ára á sparkvellinum við Egilsstaðaskóla
10:00 – 17:00 Hoppukastalar í Tjarnargarði
10:00 – 17:00 Frisbígolf í Selskógi 
10:00 – 17:00 Minigolf opinn völlur - Á móti Hótel Héraði
10:00 – 20:00 Ratleikur í Selskógi Egilsstaðastofa
10:00 – 20:00 Panna battavöllur fyrir götufótbolta
10:00 – 20:00 Sýning um íþróttamanninn Hrein Halldórsson í Íþróttamiðstöð
10:00 – 20:00 Dótakassi kubbur, golf, bílar, tennis o.fl. í Tjarnargarði
11:00 – 12:00 Fótboltamót, stúlkur 5-7 ára á sparkvellinum við Egilsstaðaskóla
11:00 – 14:00 Bubbluboltar í Skjólgarði
12:00 – 14:00 Víkingaleikar og forníþróttir í Selskógi
16:00 Bogfimi – kennsla við Skattstofuna (á móti Egilsststofu)
14:00 Barnaleiðsögn um Minjasafn Austurlands
14:00 Krakkaganga – Óvissuferð - Brottför frá Tjarnarási
17:00 – 21:00 Vinnusmiðja MOTUS í Íþróttamiðstöð
21:00 – 23:00 Kvöldvaka í tjaldi við íþróttamiðstöð. Fram koma Hildur, Emmsjé Gauti og Mur Mur
23:30 Flugeldasýning á Vilhjálmsvelli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka