Síðasta hlaupi jamaíska spretthlauparans Usain Bolt lauk á leiðinlegan hátt, en hann tognaði aftan í læri á lokasprettinum í 4x100 metra boðhlaupi karla á heimsmeistaramótinu í London í kvöld.
Það voru heimamenn frá Bretlandi sem fóru með sigur af hólmi í hlaupinu, en breska sveitin hljóp á tímanum 37,47 sekúndum.
Bandaríska sveitin hreppti silfurverðlaun með því að hlaupa á tímanum 37,52 sekúndum og japanska sveitin nældi sér í bronsverðlaun með því að koma í mark á 38,04 sekúndum.
Breska sveitin náði besta árangrinum í 4x100 metra boðhlaupi karla á árinu 2017 og bæði bandaríska og japanska sveitin bættu sinn besta árangur í greininni.
Glæstur ferill Bolt hlaut því snautlegan endi, en honum mistókst að tryggja sér sigurinn í 100 metra hlaupinu á heimsmeistaramótinu og meiddist svo í lokahlaupi sínu 4x100 metra boðhlaupinu í kvöld.
Þegar frá líður frá þessu heimsmeistaramóti og snjóa fer yfir þessi vonbrigði hjá Bolt verður hans hins vegar minnst sem algerlega magnaðs íþróttamanns sem breytti heimsmyndinni í sprettlaupum.
Bolt er fyrsti maðurinn til þess að eiga heimsmet í bæði 100 og 200 metra hlaupi frá því að tímatökuaðferðin sem nú er notuð var tekin upp. Bolt kveður sviðið sem áttfaldur ólympíumeistari og ellefufaldur heimsmeistari, en hann hefur haft mikla yfirburði í sínum greinum í gegnum tíðina.