Conor McGregor mætir Floyd Mayweather í sínum fyrsta atvinnumannabardaga í boxi í T-Mobile Arena í Las Vegas í nótt. Þar reynir McGregor að vera fyrstur til þess að leggja Mayweather að velli, en Mayweather hefur haft betur í öllum 49 bardögum sínum til þessa.
Það vinnur með McGregor að Mayweather mætir ryðgaður til leiks, en hann barðist síðast í september árið 2015. McGregor lét það skýrlega í veðri vaka í vigtun bardagamannanna að hann teldi Mayweather í slæmu ásigkomulagi og hann myndi nýta sér það.
Þá er Mcgregor örvhentur og afar höggþungur miðað við keppanda í blönduðum bardagaíþróttum, en 18 af 21 sigrum hans í MMA hafa komið eftir rothögg. Flestir telja hins vegar að reynsla Mayweather í boxi verði til þess að hann fari með sigur af hólmi.
Mayweather hefur sagt í viðtölum sínum við fjölmiðla fyrir þennan bardaga að hann stefni á að rota McGregor, en Mayweather hefur ekki unnið bardaga með rothöggi síðan hann rotaði Victor Ortiz árið 2011.
Báðir aðilar munu eiga fyrir salti í grautinn eftir þennan bardaga, en talið er að Mayweather fái í sinn hlut um 200 milljón dollara þegar þáttökufé og hluti hans af sjónvarpstekjum og söluvarningi er tekin saman.
Mayweather mun fá í minnsta lagi 100 milljón dollara fyrir þennan bardaga sem er jafn mikið og hann fékk þegar hann barðist við Manny Pacquiao árið 2015. Þessi upphæð er sú mesta sem Mayweather hefur fengið í þátttökufé á ferli sínum.
McGregor mun hins vegar hljóta 30 milljónir dollara í þátttökufé, en það er tíu sinnum meira en hann hefur áður fengið mest í þátttökufé. McGregor fékk þrjár milljónir dollara fyrir að mæta Nate Diaz á síðasta ári. Talið er að McGregor muni fá 75 milljónir í vasann þegar allur ágóði hans af bardaganum verður tekin saman.
Bardagi McGregor og Mayweather sem er í léttmillivigt hefst í kringum 03:00 í nótt að íslenskum tíma.