„Þetta var stál í stál allan leikinn og því miður endaði þetta með svekkjandi tveggja marka tapi. Það voru tvo flott lið að berjast í þessum leik og þetta féll með Haukaliðinu í dag,“ sagið Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, eftir svekkjandi 22:20-tap liðsins gegn Haukum í fimmtu umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í Schenker-höllinni í Hafnarfirði í kvöld.
„Við spiluðum öfluga vörn allan leikinn. Við fáum fá mörk á okkur og þá einkum og sér í lagi þegar náum að stilla upp í vörn sem er mjög jákvætt. Þá var markvarslan fín í þessum leik. Ída [Bjarklind Magnúsdóttir] tók af skarið í sóknarleiknum og skilaði góðu framlagi sem var gaman að sjá,“ sagði Örn aðspurður um þá jákvæðu punkta sem hann tæki úr leiknum.
„Við erum svona á pari hvað stigasöfnun varðar. Mér finnst við hafa spilað heilt yfir vel í vetur og ég er bjartsýnn á framhaldið í vetur. Við töpuðum boltanum á ögurstundum í þessum leik og það var dýrt. Það var ekki mikið sem bar á milli liðanna og vonandi að sigurinn detti okkar megin í næsta leik,“ sagði Örn um byrjun Selfossliðsins og framhaldið hjá liðinu.