„Ég held að allir séu orðnir mjög langþreyttir á þessu ástandi, og það er bara kornið sem fyllti mælinn að Sundsambandið sé nú tilbúið að greiða stjórnarmönnum fyrir að fara á mót. Er þetta eitthvert djók? Hvernig er verið að forgangsraða?“ spyr Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, landsliðskona í sundi.
Morgunblaðið ræddi við Ingibjörgu í gær en hún er afar óánægð með þá ákvörðun stjórnar Sundsambands Íslands að veita 50.000 króna styrk til hvers stjórnarmanns sem fer á Evrópumeistaramótið í 25 metra laug í Kaupmannahöfn í desember. Hún er óánægð með þá staðreynd í ljósi þess að sjálft landsliðsfólkið hafi í gegnum tíðina og þurfi enn oft sjálft að greiða ferðakostnað vegna keppna, til að mynda á Smáþjóðaleikum og Norðurlandamótum.
Alls sitja ellefu manns í stjórn SSÍ. Formaðurinn Hörður J. Oddfríðarson fer á EM eins og venja er og sinnir þar ýmsum störfum, og stjórnarmaðurinn Hrafnhildur Lúthersdóttir er vitaskuld keppandi á mótinu. Þá standa eftir 9 manns og af þeim segir Hörður að 2-3 hafi kosið að nýta sér styrkinn og sækja Kaupmannahöfn heim í desember, en öllum stjórnarmönnum stóð styrkurinn til boða.
Hörður segir ekki um neina skemmtiferð að ræða fyrir stjórnarmenn, heldur sé tilgangurinn að fylgja eftir íslenska landsliðsfólkinu og læra af mótshaldi Dana, ekki síst til að móta frekar stefnu um uppbyggingu sundaðstöðu á Íslandi. Hann kveðst þó skilja að það kunni að koma spánskt fyrir sjónir að til séu peningar til að fljúga út með stjórnarfólk, þegar til að mynda 16 sundmenn á Smáþjóðaleikunum í vor urðu að greiða hátt í 50 þúsund krónur hver úr eigin vasa í ferðakostnað:
„Það skil ég vel, og það er alveg eðlilegt að það sé spurt út í þetta. Það má alveg spyrja hvort það hefði frekar átt að taka þennan pening og nota til að borga til baka til sundfólksins,“ segir Hörður.
Ítarlega er fjallað um málið og rætt við þau Ingibjörgu og Hörð í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.