Hringleikahús nútímans

Alan Shearer hefur áhyggjur af heilsu fyrrverandi knattspyrnumanna og stóð …
Alan Shearer hefur áhyggjur af heilsu fyrrverandi knattspyrnumanna og stóð að fróðlegri heimildamynd sem sýnd var á BBC. AFP

„Þegar ég fylgist með umræðunni um höfuðáverka í afreksíþróttum, og viðbrögðum við henni, velti ég því fyrir mér hvort margt hafi breyst frá tíma skylmingaþrælanna í hringleikahúsum fyrir tveimur öldum eða svo.

Við sitjum á áhorfendapöllunum, eða fyrir framan flatskjái, eða fyrir framan tölvuskjái en okkur er nokk sama hver sé fórnarkostnaður skemmtikraftanna. Hver þeirra örlög verða skiptir ekki máli. Sérstaklega þar sem þau fá nú svo mikið borgað. Sterkar vísbendingar um að íþróttafólk þrói með sér ótímabæra heilabilun vegna endurtekins heilahristings vekja ekki neitt sérstaklega sterk viðbrögð. 

Flaug þetta í gegnum hugann þegar ég stóð eitt sinn í Róm og virti fyrir mér hið gríðarlega mikla mannvirki sem Colosseum er. Þar stappaði fólk og klappaði af kæti á meðan  skylmingaþrælarnir bárust á banaspjót á sínum tíma. Á okkar tímum hafa höfuðáverkar orðið áberandi í mörgum íþróttum sem vinsælar eru. Til að mynda hefur íslenskt afreksfólk í vinsælum boltagreinum eins og knattspyrnu og handknattleik þurft að láta staðar numið í íþrótt sinni vegna höfuðáverka. Nú telja hins vegar margir að afleiðingarnar af endurteknum heilahristingi geti verið miklu alvarlegri en að einungis íþróttaferlinum ljúki. Fólk getur þróað með sér alvarleg andleg veikindi eins og heilabilun,“ segir meðal annars í viðhorfsgrein Kristjáns Jónssonar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Þar er jafnframt vísað til kvikmyndarinnar Concussion og heimildamyndar BBC Dementia, Football and Me. Umfjöllunarefnið tengist ameríska fótboltanum annars vegar og knattspyrnunni á Bretlandseyjum hins vegar. Í báðum íþróttagreinum hafa gamlar kempur þróað með sér heilabilun um aldur fram. 

Alan Shearer, fyrrverandi landsliðsframherji Englendinga, gerði heimildamyndina fyrir BBC. „Ég vissi að knattspyrnuiðkun í hátt í tvo áratugi gæti þýtt að ég yrði í erfiðleikum með hnén eða bakið síðar á lífsleiðinni og það er staðreynd. En aldrei grunaði mig að ég gæti átt eftir að fá heilaskemmdir vegna þess. Það var ekki í umræðunni á þeim tíma,“ sagði Shearer í sjónvarpsviðtali og hann er gagnrýninn á hversu lítið hefur verið gert til að rannsaka hvort knattspyrnuiðkun auki líkurnar á ótímabærri heilabilun. 

Viðhorfsgreinina í heild sinni má nálgast í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Þúsundir leikmanna úr NFL-deildinni fóru í skaðabótamál þar sem þeir …
Þúsundir leikmanna úr NFL-deildinni fóru í skaðabótamál þar sem þeir töldu NFL-deildina halda upplýsingum leyndum um hættuna af heilahristingi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert