„Litli feiti strákurinn“ rotaði heimsmeistarann

Andy Ruiz Jr. slær hér heimsmeistarann í gólfið í Madison …
Andy Ruiz Jr. slær hér heimsmeistarann í gólfið í Madison Square Garden í nótt. AFP

Hreint út sagt ótrúlegur hnefaleikabardagi átti sér stað í Madison Square Garden í New York, Bandaríkjunum, í nótt þegar Andy Ruiz Jr. rotaði margfaldan ósigraðan heimsmeistara, Anthony Joshua.

Jos­hua var ríkj­andi WBA, IBF, WBO og IBO heims­meist­ari og ósigraður í 22 at­vinnu­bardögum en Ruiz þótti ekki líklegur og var meðal annars gerður að athlægi í ýmsum fjölmiðlum í aðdraganda bardagans. Ruiz er nokkuð hvapholda og þykir ekki sérlega íþróttamannslegur í útliti og þá átti hann ekki einu sinni að berjast við stórmeistarann upprunalega.

Joshua ætlaði að berjast við Jarrell Miller en sá þurfti að draga sig úr keppni fyrir sex vikum vegna meiðsla. Ruiz var því fenginn til að hlaupa í skarðið með stuttum fyrirvara en hann hefur meðal annars verið kallaður „litli feiti strákurinn“ í fjölmiðlum og ljóst að flestir töldu bardagann lítið annað en formsatriði.

„Litli feiti strákurinn“ gerði sér hins vegar lítið fyrir og barði Joshua, sem er af mörgum talinn besti þungavigtaboxari samtímans, fjórum sinnum í gólfið í nótt. Það var þó meistarinn sem fór betur af stað og sló Ruiz niður í þriðju lotu en sá svaraði strax fyrir sig og sendi Joshua í gólfið í tvígang fyrir lok lotunnar. Þetta var í fyrsta sinn sem einhverjum tókst að slá Joshua niður síðan hann barðist við Vladimir Klitschko árið 2017.

Óvæntustu úrslitin í áratugi

Joshua, sem er frá Englandi, var að berjast í Bandaríkjunum í fyrsta sinn og honum tókst aldrei að jafna sig eftir þriðju lotuna. Joshua var aftur sleginn niður tvisvar í sjöundu lotu og að þessu sinni var bardaganum lokið, öllum til mikillar undrunar.

Fjölmiðlar vestanhafs tala um þennan bardaga sem óvæntustu úrslit íþróttarinnar síðan Buster Douglas vann eftirminnilegan sigur á Mike Tyson árið 1990. Á meðan eru Joshua og umboðsmaður hans strax farnir að kalla eftir öðrum bardaga síðar á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert