Afrek sem allar milljónaþjóðir yrðu stoltar af

Vilhjálmur Einarsson með foreldrum sínum, Sigríði Vilhjálmsdóttur og Einari Stefánssyni, …
Vilhjálmur Einarsson með foreldrum sínum, Sigríði Vilhjálmsdóttur og Einari Stefánssyni, við heimkomuna frá Melbourne. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Í dag eru sextíu ár liðin frá því að Vilhjálmur Einarsson setti Íslandsmet í þrístökki hinn 7. ágúst árið 1960 þegar hann stökk 16,70 metra á Laugardalsvellinum.

Stökkið var á þeim tíma næstlengsta stökk í heiminum og Íslandsmetið stendur enn í dag og er elsta gildandi Íslandsmetið. Eng­inn Íslend­ing­ur hef­ur kom­ist með tærn­ar þar sem Vil­hjálm­ur hef­ur hæl­ana, og ríf­lega það, því næst­besti ár­ang­ur Íslend­ings í þrístökki er 15,29 metr­ar en Friðrik Þór Óskars­son náði þeim ár­angri árið 1979.

Svo ótrú­legt sem það kann að virðast, þá hefði Íslands­met Vil­hjálms frá ár­inu 1960 dugað til að koma hon­um í úr­slit í þrístökk­inu á Ólympíuleikunum enn þann daginn í dag. Hann hefði orðið tí­undi í undan­keppn­inni á leikunum í Ríó fyrir fjórum árum og kom­ist nokkuð ör­ugg­lega áfram, og hefði síðan hafnað í 8. sæti í úr­slita­keppn­inni. Þetta seg­ir meira en mörg orð um stöðu Vil­hjálms og ár­ang­ur hans fyr­ir 55-60 árum.

Stærsta afrek Vilhjálms var að setja ólympíumet og verða fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikunum árið 1956 þegar leikarnir voru haldnir í Melbourne í Ástralíu.

Vil­hjálm­ur, sem þá var 22 ára gam­all, setti ólymp­íu­met í öðru stökki sínu þegar hann sveif 16,26 metra. Þar með náði hann for­yst­unni í stökkk­eppn­inni og hélt henni í tvo klukku­tíma, eða þar til Adhem­ar Da Silva, 29 ára gam­all Bras­il­íumaður og heims­met­hafi í grein­inni, sem átti ólymp­íu­titil að verja frá leik­un­um í Hels­inki fjór­um árum áður, stökk 16,35 metra í sinni fjórðu til­raun og náði gull­verðlaun­un­um og ólymp­íu­met­inu af Vil­hjálmi.

Vil­hjálm­ur Ein­ars­son lést 28. des­em­ber á síðasta ári, 85 ára að aldri, sama dag og kjörið fór fram um íþróttamann ársins. Hann varð einmitt fyrstur Íslendinga til að vera kosinn íþróttamaður ársins árið 1956 og hann hlaut þá útnefningu alls fimm sinnum, oftar en nokkur annar.

Forsíða Morgunblaðsins þriðjudaginn 9. ágúst. Stórkostlegt afrek sem allar milljónaþjóðir …
Forsíða Morgunblaðsins þriðjudaginn 9. ágúst. Stórkostlegt afrek sem allar milljónaþjóðir yrðu stoltar af segir þar um stökk Vilhjálms. Morgunblaðið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert