Frjálsíþróttakonan Ásdís Hjálmsdóttir keppir í síðasta sinn í spjótkasti í dag og lýkur þar með tuttugu ára ferli hennar í fremstu röð.
Ásdís, sem verður 35 ára á árinu, ætlaði að ljúka glæstum tuttugu ára frjálsíþróttaferli með því að komast á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar og keppa síðan á Evrópumeistaramótinu í París. Ólympíuleikunum var hins vegar frestað til næsta árs og EM aflýst endanlega vegna kórónuveirunnar.
Í staðinn hefur hún keppt á nokkrum smærri mótum í sumar og lýkur á Castorama-mótinu í Svíþjóð í dag. Hún á Íslandsmetið í spjótkasti og hefur slegið það alls sjö sinnum. Hennar lengsta kast er 63,43 metrar frá árinu 2017 og hefur verið nálægt því í sumar, kastaði meðal annars 62,66 metra í júní.