„Til hvers þá að vera að þessu?“

Laurence Halsted, Ólympíufari, segir árangurinn ekki eiga vera það mikilvægasta …
Laurence Halsted, Ólympíufari, segir árangurinn ekki eiga vera það mikilvægasta í lífi íþróttamannsins. AFP

„Það er ekki þess virði að komast á toppinn ef þú situr eftir með ekkert sjálfsálit. Ef íþróttir byggja þig ekki upp sem manneskju, til hvers þá að vera að þessu?“ segir Laurence Halsted íþróttastjóri skylmingasambands Danmerkur í samtali við Sunnudagsblaðið.

Halsted hefur tvisvar farið á Ólympíuleika fyrir hönd Bretlands og keppt þar í skylmingum. Hann byrjaði sjö ára að æfa íþróttina en hún átti þó ekki alltaf hug hans og hjarta. Hann æfði alls kyns íþróttir og það var ekki fyrr en á seinni árum sem hann einbeitti sér alfarið að skylmingum. „Í háskóla tók ég mér pásu frá skylmingum. Ég hafði náð nokkuð langt í mínum aldursflokki en ákvað að spila ruðning þess í stað,“ segir Halsted.

Hann sneri þó aftur og fór á leikana í London árið 2012 og Ríó 2016. Eftir leikana í Ríó, þá 32 ára, setti Halsted sverðið upp í hillu fyrir fullt og allt. Í dag starfar Halsted sem íþróttastjóri skylmingasambands Danmerkur. Það var einmitt í skylmingaklúbbi í Hellerup sem blaðamaður hitti hann og ræddi við hann um stöðu íþróttamannsins og hvað það þýðir að vera íþróttamaður í dag.

„Opnaði augu mín“

Í aðdraganda Ólympíuleikanna í London braut Halsted á sér úlnliðinn og var frá æfingum í fjóra mánuði. Það reyndi mikið á hann andlega og fór hann því til íþróttasálfræðings.

„Ég hafði unnið með íþróttasálfræðingi áður en engum sem náði til mín,“ segir Halsted. „En þessi var frábær og hjálpaði mér mikið. Hún opnaði augu mín fyrir ákveðnum þáttum. Við unnum mikið með gildi mín og einblíndum á vegferðina fremur en markmiðið sjálft.“
Þessi reynsla og vilji Halsteds til að afla sér upplýsinga og draga lærdóm af öðrum leiddu til þess að hann fór að láta sig hugarfar íþróttamanna og viðhorf annarra til þeirra varða.

Halsted kynnist hugtaki sem kallast „self-compassion“ á ensku og þýðir einfaldlega að sýna sjálfum sér góðvild og samkennd. Hann fann lítið af upplýsingum um hvernig hægt væri að nýta sér góðvild af þessu tagi í íþróttum. Hann las sér því til og tengdi það sem skrifað hefur verið um ágæti þess að tileinka sér góðvild í garð sjálfs sín við íþróttir og hvernig það getur nýst íþróttamönnum. Í kjölfarið skrifaði hann þrjár stuttar greinar á síðu The True Athlete Project, samtaka sem hafa það að markmiði að bæta andlega heilsu íþróttamanna. Eru þær nokkurs konar mótvægi við það sjálfsniðurrif sem einkennir oft og tíðum íþróttir og margir halda að sé nauðsynlegt til að ná árangri.

Grét eftir hvern ósigur

Sigrar, töp og aðrar útkomur leiksins eiga, eins og gefur að skilja, stærstan sess í huga þeirra sem koma að íþróttum þegar árangur er metinn. Það kemur þó oft og tíðum niður á andlegri heilsu íþróttamannanna sem falla margir í þá gryfju að tengja virði sitt við útkomuna. Halsted var engin undantekning sem ungur íþróttamaður.

„Ég man hversu illa mér leið þegar ég tapaði. Sem barn grét ég í hvert skipti sem ég tapaði. Það hugarfar fylgdi mér fram á fullorðinsaldur er ég keppti fyrir landsliðið. Það tók daga eða vikur að jafna sig á tapi, mér leið svo illa eftir á. Útkoman skipti of miklu máli.“

Halsted segir að þegar hann áttaði sig á því, með sálfræðingi sínum, að hann þyrfti ekki að þjást eftir hvert tap, að hann gæti verið ánægður með sig eða stoltur af sér þrátt fyrir tap, hafi það skipt sköpum. Hann hafði líklega heyrt eitthvað þvíumlíkt áður en þarna small það fyrir honum. Þetta var um það leyti er hann glímdi við meiðslin fyrir leikana í London.

„Kvíðinn og hræðslan við að tapa hvarf því ef ég tapaði þá leið mér ekki nærri því jafn illa og áður. Á þessum leikum og leikunum í Ríó var upplifunin af keppni allt önnur en hún hafði verið.“

Halsted fylgdi á sínum tíma þeirri meginstraumsskoðun að ef manni líði ekki illa eftir tap þá skipti íþróttin mann ekki nógu miklu máli. Það myndi svo leiða til þess að maður legði ekki nægilega mikið á sig til að ná árangri.

„En það var ekki satt því eftir að ég losaði mig við kvíðann langaði mig alveg jafn mikið að standa mig vel næst. Ég tók bara ekki kvíðann með mér inn í næstu keppni,“ segir Halsted. Munurinn var sá að drifkrafturinn kom ekki lengur frá neikvæðum hugsunum heldur vilja til að gera betur. Vilja sem bæði endist lengur og hefur ekki neikvæð áhrif á aðra þætti lífsins.

Halsted er íþróttastjóri Skylmingasambands Danmerkur.
Halsted er íþróttastjóri Skylmingasambands Danmerkur.

Er þetta allt og sumt?

Halsted sendir frá sér bók í ágúst, Becoming a True Athlete, þar sem hann leggur fram heimspeki sína fyrir íþróttamanninn. Íþróttir eigi ekki eingöngu að snúast um að verða sem bestur í íþrótt sinni heldur einnig að rækta aðra eiginleika sem stuðla að því að viðkomandi geti lifað innihaldsríku lífi meðan á ferlinum stendur og eftir að honum lýkur. Bókin byggist á ákveðnum dyggðum þessarar heimspeki og hvaða aðferðum sé hægt að beita til að rækta þær dyggðir.

Ólíkt aldagömlum bardagaíþróttum fannst Halsted engin heimspeki fyrirfinnast fyrir nútímaíþróttir. Þá er hætt við að áherslan á útkomu leiksins taki yfir. Íþróttamenn halda að ef markmiðinu er náð, hvort sem það er ólympíugull eða eitthvað annað, muni það veita þeim hamingju. En eftir að því er náð spyrja margir sig: „Er þetta allt og sumt?“ Niðurstaðan er að margir íþróttamenn glíma við andleg veikindi eftir að ferlinum lýkur; þunglyndi, kvíða og jafnvel sjálfsvígshugsanir.

„Það er ekki þess virði að komast á toppinn ef þú situr eftir með ekkert sjálfsálit. Ef íþróttir byggja þig ekki upp sem manneskju, til hvers þá að vera að þessu?“ segir Halsted.

„Það eru margir sem segja að líf atvinnuíþróttamanns sé ekki heilbrigt. Og það er rétt að vissu leyti og erfitt að finna jafnvægi ef þú hefur æft íþróttir allt þitt líf. En það er svo margt sem við getum gert til að koma í veg fyrir þessa niðurstöðu. Hjálpa íþróttamönnum að skilja hvað er mikilvægt og hvað ekki. Það er svo margt annað en verðlaunin sem veitir íþróttamönnum ánægju.“

Hvað er þá mikilvægt?

„Þegar vinir mínir úr skylmingum, hvort sem það eru heimsmeistarar eða bara góðir skylmingamenn, horfa til baka yfir ferilinn eru það ekki sigrarnir eða medalíurnar sem þeir tala um. Það eru samböndin sem þeir mynduðu, reynslan sem þeir öðluðust og hvert þeir ferðuðust. Það er það sem þeir muna.“

Halsted segir sorglegt hve margir átti sig ekki á þessu fyrr en of seint og einblíni allan sinn feril á það sem gefi þeim á endanum ekkert en hunsi það sem veiti þeim ánægju og tilgang.

Ekki málmurinn sem skiptir máli

Halsted segir að hægt sé að gefa allt sitt í íþróttina þó svo maður átti sig á því að sigurinn sem maður eltir skipti ekki öllu máli. Það sé leiðin að markmiðinu sem veiti manni ánægju og lífsgleði, ekki málmurinn sem verður eða verður ekki hengdur um háls manns.

„Það er ekkert mál að komast á toppinn án þess að sýna samkennd, ábyrgð og vera meðvitaður um hvað skiptir máli. En það er það sem við þurfum að bæta við og það þarf ekki að gera frammistöðuna verri,“ segir Halsted.

En myndu þeir íþróttamenn sem hunsa allt nema markmiðið um að verða meistarar ná jafnlangt ef þeir áttuðu sig á því hvað skipti þá raunverulega máli? Myndu þeir leggja jafn mikið á sig til að verða bestir?

„Kannski myndu þeir missa eitthvað við það en er það þess virði að verða svona góður ef þú hefur ekkert annað?“ segir Halsted og nefnir Roger Federer sem dæmi um íþróttamann sem hefur náð lengst allra tenniskarla á meðan hann hefur ræktað aðra eiginleika sína.

Þarna kemur uppeldi íþróttamanna inn. Ef við ölum upp íþróttamenn með það í huga að þeir leggi hart að sér til að ná árangri en á sama tíma átti sig á því að aðrir þættir lífsins skipti meira máli getum við fengið það besta úr báðum heimum.

„Það er einmitt spurningin. Gætu þessir íþróttamenn verið jafnvel betri ef þeir hefðu verið aldir upp með því viðhorfi sem ég tala fyrir? Gæti Tiger Woods hafa orðið enn betri ef hann hefði fengið annað uppeldi?“

Svo er auðvitað spurning hvort við myndum sjá fleiri góða íþróttamenn sem ungir heltast úr lestinni vegna þess viðhorfs til árangurs sem er ætlast til af þeim. „Ég hef heyrt frá mörgum innan afreksíþrótta sem tala um að margir einfaldlega hætti vegna þeirrar hörku sem oft er beitt við þjálfun. Það er ekki í boði að sýna veikleika og ef fólk nær ekki fram sínu besta við þær aðstæður hættir það.“

Halsted segir mikilvægt að íþróttamenn séu fyrirmyndir utan vallar sem innan. „Það er stefnan sem við viljum að íþróttir taki. Að við ölum upp íþróttamenn sem eru fyrirmyndir en ekki bara frábærir íþróttamenn. Það sem frábær frammistaða blæs fólki í brjóst er hverfult samanborið við að sjá einhvern eins og Roger Federer spila frábærlega og vera svo auðmjúkur og sýna andstæðingum sínum væntumþykju,“ segir hann.

„Það er mun auðveldara að tengja við einhvern sem sýnir eitthvað sem við getum sett okkur markmið um að ná. Við verðum aldrei jafngóð í tennis og Federer en við getum sett okkur það að markmiði að koma fram við aðra eins og hann,“ segir Halsted að lokum.

Nánar er rætt við Laurence Halsted í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert