„Hefðu átt að grípa inn í“

Letesenbet Gidey setur heimsmet í 5.000 metra hlaupi kvenna í …
Letesenbet Gidey setur heimsmet í 5.000 metra hlaupi kvenna í fyrra. AFP

Það vakti athygli fyrr í mánuðinum þegar Hollendingurinn Sifan Hassan hljóp 10.000 metra á 29 mínútum og 6,82 sekúndum og setti þar með heimsmet, bætti það gamla um næstum 11 sekúndur og sinn besta árangur um tæpar 30 sekúndur.

Tveimur dögum síðar, á sömu braut í Hengelo í Hollandi bætti Letesenbet Gidey frá Ethópíu metið um tæpar sjö sekúndur, hljóp á 29 mínútum og 1,03 sekúndum. Á tveimur sólarhringum hafði því met sem sett var á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 og enginn komist nálægt síðan verið bætt tvisvar, samtals um 16 sekúndur.

Gidey setti einnig heimsmet í 5.000 metra hlaupi í fyrra og þá voru gömul met í 10.000 og 5.000 metra hlaupi karla slegin nýlega. Þessi bylgja heimsmeta í löngum brautarhlaupum hefur vakið athygli og vísar til svipaðrar þróunar sem fór af stað í götuhlaupum fyrir um þremur árum er mörg met voru sett.

Bentu margir á nýja tegund skópara á þeim tíma og svo virðist sem tæknin sem þau pör byggðu á sé búin að ryðja sér rúms í framleiðslu gaddaskópara sem notuð eru við brautarhlaupin.

Hlynur Andrésson, margfaldur Íslandsmethafi í langhlaupum, bæði á götu og braut, segir ljóst að skórnir hjálpi hlaupurum. „Það sem skórnir gefa manni aðallega er að ef þú ert að taka erfiðar æfingar nærðu endurheimt miklu hraðar. Þú ert ekki jafn súr í löppunum daginn eftir,“ segir Hlynur en það leiðir til þess að hlauparar geta æft meira sem skilar sér í hraða.

„Vanalega get ég ekki labbað eftir 10.000 metra en ég var fínn eftir hlaupið um daginn,“ segir Hlynur sem setti Íslandsmet í 10.000 metra hlaupi fyrir tveimur vikum.

Hlynur segir að þessi nýja tegund gaddaskóa hafi ekki jafn mikið að segja og götuskórnir. Strangari reglna sé því ekki þörf þar. „Þeir hefðu átt að grípa inn í með götuhlaupin þar sem allir eru að hlaupa töluvert hraðar þar en með brautarhlaupin held ég að þetta sé allt í lagi.“

Þá segir hann að hlaupararnir sjálfir hafi meira að segja en gaddaskórnir nýju. „Þessar tvær sem settu met í 10.000 metrum eru báðar með þeim hæfileikaríkustu sem komið hafa fram í hlaupum kvenna,“ segir Hlynur og bendir á að Hassan var einni og hálfri mínútu á undan næsta keppanda þegar hún setti sitt met. „Ef þetta væru bara skórnir væru allir að hlaupa svona hratt.“

Nánar er fjallað um heimsmet í hlaupum og rætt við Hlyn Andrésson í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert