Hamilton gæti fengið refsingu

Max Verstappen og Lewis Hamilton eftir kappaksturinn í Abú Dabí …
Max Verstappen og Lewis Hamilton eftir kappaksturinn í Abú Dabí um síðustu helgi. AFP

Ökuþórinn Lewis Hamilton hjá Mercedes gæti verið í vandræðum eftir að hann mætti ekki á verðlaunahátið Alþjóða kappaksturssambandsins, FIA, í gærkvöldi.

Hamilton laut í lægra haldi fyrir Max Verstappen hjá Red Bull um síðustu helgi og missti þar með heimsmeistaratitilnn í Formúlu-1 í hendur hans.

Hamilton og liðstjóri hans hjá Mercedes, Toto Wolff, voru ekki par sáttir við niðurstöðuna þar sem þeim þótti dómarar kappakstursins í Abú Dabí um síðustu helgi fara á svig við reglurnar í tvígang, sem hafi hjálpað Verstappen að hafa betur gegn Hamilton.

Mohemmed ben Sulayem, nýr forseti FIA, segir það ekki útilokað að Hamilton muni sæta einhvers konar refsingu fyrir að mæta ekki á verðlaunahátíðina, sem Wolff gerði ekki heldur.

Samkvæmt reglum Formúlu-1 þurfa þeir þrír kappakstursmenn sem hafna í þremur efstu sætunum á tímabilinu að mæta á verðlaunahátíð FIA.

„Ef það hefur eitthvað brot á reglunum átt sér stað verður það ekki fyrirgefið,“ sagði ben Sulayem við BBC Sport.

Spurður hvort hann ætti þá við að Hamilton yrði refsað sagði hann:  „Fyrirgefnin er alltaf möguleg en reglur eru reglur. Ég veit að Lewis er mjög leiður yfir því sem átti sér stað og myndi segja að hann sé niðurbrotinn.

En við verðum að skoða hvort það hafi eitthvað brot á reglum átt sér stað. Þar sem ég hef bara verið forseti í nokkrar klukkustundir get ég ekki gefið nein svör án þess að leita aftur til staðreyndanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert