Íslendingur valinn í breska landsliðið

Leo Anthony Speight (t.h.) fyrir nokkrum árum.
Leo Anthony Speight (t.h.) fyrir nokkrum árum.

Leo Anthony Speight, tvítugur íslenskur strákur, hefur verið valinn í landslið Stóra-Bretlands í taekwondo.

Þessu greinir faðir hans, Sveinn Speight, frá í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Þar segir hann frá því að Leo hafi nokkuð óvænt verið boðaður í úrtökur hjá landsliðinu í október síðastliðnum.

Hann hafi komist í gegnum þá fyrstu síu og þá fengið tækifæri til þess að sýna hvað í sér byggi fyrir framan þjálfara og framkvæmdastjóra landsliðsins.

„Hann gerði sér lítið fyrir og rotaði andstæðing sinn eftir rúma mínútu þannig að það leit vel út fyrir Leo (hinn gaurinn var fínn eftir þetta, bara smá sært egó). Hann fékk svo fljótlega boð um að að hann væri kominn í gegnum þessa síu tvö og ætti að mæta í svokallað boot camp þar sem þeir hjá GB gætu séð hann æfa og keppa í þrjá heila daga.

Hann var svo varla lentur aftur á Íslandi þegar hann fékk símtal um að hann væri kominn í gegn og það eina sem væri eftir væri að fara í læknisskoðun sem þyrfti því miður að fara fram í Ólympíusetrinu þeirra í Manchester,“ skrifaði Sveinn.

Þeir feðgar hafi því stokkið upp í flugvél skömmu fyrir jól þar sem Leo gekkst undir læknisskoðunina og farið skömmu síðar aftur heim til þess að halda jól á Íslandi.

Um liðna helgi barst svo formlegt svar frá landsliði Stóra-Bretlands þar sem var staðfest að Leo hafi staðist læknisskoðunina.

„Leo er því nú formlega kominn í eitt sterkasta landslið í heiminum sem er með fullt af heims- og ólympíuverðlaunahöfum,“ skrifaði Sveinn einnig.

Leo mun á næstunni flytja til Manchester þar sem hann verður hluti af landsliði Stóra-Bretlands í taekwondo í fullri, launaðri vinnu sem afreksíþróttamaður.

Hann á, líkt og eftirnafn hans gefur til kynna, ættir að rekja til Stóra-Bretlands og var því gjaldgengur í landsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert