Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic hefur dregið sig úr keppni á tveimur tennismótum í Bandaríkjunum þar sem hann fær ekki aðgöngu inn í landið.
Ástæðan fyrir því er sú að allir erlendir borgarar sem koma til Bandaríkjanna þurfa að sýna fram á að þeir séu bólusettir fyrir kórónuveirunni, sem Djokovic er ekki.
Hann var á skrá yfir keppendur á bæði Indian Wells-mótinu sem stendur nú yfir í Kaliforníu og á Opna mótinu í Miami sem hefst síðar í mánuðinum.
„Þrátt fyrir að ég hafi sjálfkrafa verið skráður á mótin í Indian Wells og Miami vissi ég að það yrði ólíklegt að ég fengi að ferðast.
CDC [Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna] hefur staðfest að ekki standi til að breyta reglunum þannig að ég mun ekki geta leikið í Bandaríkjunum.
Ég óska þeim sem taka þátt góðs gengis á þessum frábæru mótum!“ skrifaði Djokovic á twitteraðgangi sínum í vikunni.
Búist er við því að að hann taki næst þátt á móti í Monte Carlo í næsta mánuði.