Alþjóðarúgbísambandið, IRL, hefur tekið ákvörðun um að banna trans konum að taka þátt í landsleikjum kvenna á vegum sambandsins á meðan það kannar frekar hvernig skuli hátta gjaldgengi.
Í yfirlýsingu frá IRL sagði að sambandið vildi koma jafnvægi á rétt einstaklinga til þess að keppa án þess að skapa áhættu í garð annarra þátttakenda.
IRL fylgir Alþjóðasundsambandinu, FINA, þar með að málum, en á dögunum ákvað meirihluti stjórnar sambandsins að trans sundkonum sem hefðu gengið í gegnum einhvern hluta karlkyns kynþroskaskeiðs yrði bannað að keppa í kvenna flokki.
Sebastian Coe, framkvæmdastjóri Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF, sagði í gær í samtali við BBC Sport að sambandið myndi íhuga að fylgja FINA að málum þegar stjórn þess kæmi saman í lok ársins.