Íslenska karlalandsliðið í íshokkí er úr leik í undankeppni Vetrarólympíuleikanna 2026 eftir 6:0-tap gegn Eistlandi í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld.
Bæði lið höfðu unnið Búlgaríu og Suður-Afríku í tveimur fyrstu leikjunum og var leikurinn í kvöld því úrslitaleikur um að komast úr öðru stigi og á þriðja stig keppninnar.
Eistneska liðið byrjaði með látum því Robert Arrak skoraði fyrsta markið eftir tæpa mínútu. Hann gerði sitt annað mark og þriðja mark Eistlands á 10. mínútu og þess á milli skoraði Nikita Fedorovits annað mark Eistlands.
Var staðan eftir fyrstu lotuna því 3:0. Rétt eins og í fyrstu lotunni skoraði Eistland á fyrstu mínútu í annarri lotu og það gerði Lauri Lahesalu.
Arrak gerði svo fimmta mark Eistlands og þriðja markið sitt á 29. mínútu og var staðan fyrir þriðju og síðustu lotuna 5:0 og verkefnið vægast sagt ærið fyrir Ísland.
Í þriðju lotu var Arrak enn einu sinni á ferðinni er hann skoraði sitt fjórða mark og sjötta mark Eistlands á 45. mínútu.
Eftir þetta sjötta mark róaðist leikurinn nokkuð og niður og niðurstaðan að lokum öruggur sex marka sigur Eistlands.
Eistar fara því á þriðja stig keppninnar en Ísland er úr leik.
Mbl.is fylgdist með gangi mála í beinni textalýsingu og þá mátti einnig sjá leikinn í beinni útsendingu hér fyrir neðan.