Opnar sig um fráfall liðsfélaga síns

Bandaríkjamaðurinn Adam Johnson.
Bandaríkjamaðurinn Adam Johnson. AFP/Jonathan Daniel

Sænski íshokkímaðurinn Victor Björkung hefur tjáð sig um áfallið sem fylgdi því að sjá liðsfélaga sinn Adam Johnson fá skautablað í hálsinn í leik með Nottingham Panthers í efstu deild Englands í október síðastliðinum. Johnson lést skömmu síðar af sárum sínum.

„Ég man mest allt. Þetta skeði svo hratt og ég var auðvitað á svellinu þegar þetta gerðist. Manni finnst þetta enn óraunverulegt.

Ég fæ oft endurupplifanir og þær eru ekki mjög ánægjulegar,“ sagði Björkung í samtali við BBC Sport.

Eftir áfallið treysti hann sér ekki til þess að spila framar fyrir Panthers og hélt heim til Svíþjóðar skömmu eftir það.

Í gegnum hlífðarbúnaðinn eins og smjör

Björkung kallar eftir því að leikmenn verði skyldaðir til þess að klæðast hlífðarbúnaði sem veitir meiri vernd enda skarst hann sjálfur mjög illa á nára aðeins nokkrum mánuðum síðar.

„Skautablaðið fór í gegnum hlífðarbúnaðinn eins og smjör. Ég er 31 árs gamall og hafði í raun ekki leitt hugann að því hvað þetta getur hættulegt fyrr en á þessu tímabili.

Ég sneri aftur á svellið tveimur mánuðum eftir atvikið en í annarri borg, öðru landi og það tók mig aðeins tvo mánuði að verða sjálfur fyrir skurði.

Þetta var aðeins sentimetra eða tveimur frá slagæðinni í lærinu mínu, þannig að ég var heppinn,“ sagði Björkung.

Klikkun að þetta sé lögreglumál

Leikmaðurinn sem skar Johnson með skautablaði sínu var handtekinn skömmu eftir að hann lést og er laus gegn tryggingu á meðan lögreglan í Suður Jórvíkurskíri rannsakar málið. Björkung finnst það fráleitt að atvikið sé rannsakað sem lögreglumál.

„Þetta er klikkun. Fólkið sem var á svellinu og fólkið í áhorfendastúkunni veit að enginn reynir að gera neitt slíkt viljandi. Þetta er mjög óheppilegt slys og þetta gerist svo hratt. Það er hægt að horfa á myndskeiðið, þysja inn og hægja á þessu og allt svoleiðis.

Það er svo auðvelt að sitja og hugsa með sér að hann hafi gert þetta og hitt en ef þú horfir á þetta þegar þetta gerist í rauntíma veistu að þetta gerist allt of hratt til þess að hægt sé dæma um það,“ sagði Svíinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka