Stenson ætlar að brjóta ísinn fyrir Svía

Henrik Stenson.
Henrik Stenson. Reuters

Sænski kylfingurinn Henrik Stenson sem lék með Ryderliði Evrópu á Írlandi s.l. haust segir að hann geti orðið fyrsti sænski kylfingurinn sem nær að sigra á stórmóti en hinn þrítugi kylfingur hefur leikið gríðarlega vel að undanförnu. „Ég hef ekki sett neina pressu á mig hvað stórmótin varðar en ég hef leikið á nokkrum þeirra og náð ágætum úrslitum,“ sagði Stenson í gær við enska fjölmiðla.

„Vissulega urði það frábær upplifun að verða sá fyrsti frá Svíþjóð sem nær þeim áfanga að vinna á stórmóti í karlaflokki en ég geri mér grein fyrir því að samkeppnin er hörð. Við erum að glíma við kylfinga á borð við Tiger Woods, Phil Mickelson og Jim Furyk. Tiger virðist ætla halda uppi þeim sið að vinna tvö stórmót á ári og það gerir málið enn flóknara. “

Skotinn Paul Lawrie var síðasti Evrópubúinn sem sigraði á stórmóti en það gerði hann árið 1999 á Opna breska meistarmótinu en það sama ár sigraði Jose Maria Olazabal frá Spáni á Mastersmótinu. Bandarískir kylfingar hafa nánast einokað stórmótin á undanfönum árum en Vijay Singh frá Fijí, Michael Campbell frá N-Sjálandi og Ernie Els frá S-Afríku hafa náð að blanda sér þá baráttu.

„Það var alltaf draumur minn að sigra á Opna breska meistaramótinu og ná að leika með Ryderliði Evrópu. Núna hefur annar draumurinn ræst og ég vona að það verði ekki langt að bíða þar til að hinn draumurinn rætist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert