Undarleg hegðun starfsmanns hafði góð áhrif á Allenby

Robert Allenby.
Robert Allenby. Reuters

Ástralski kylfingurinn Robert Allenby lék á 9 höggum undir pari á fyrsta keppnisdegi Bob Hope meistaramótsins á bandarísku PGA-mótaröðinni í golfi í gær og er hann með tveggja högga forskot á keppinauta sína. Hann lék á La Quinta-vellinum í gær þar sem hann lék fyrri 9 holurnar á 32 höggum og fékk hann fjóra fugla á síðustu fimm holunum. Phil Mickelson lék á 70 höggum en þetta er fyrsta mótið sem hann tekur þátt í frá því í Ryderkeppninni á Írlandi s.l. haust.

Bandaríkjamennirnir Mark Calcavecchia og Craig Kanada léku báðir á 65 höggum og deila öðru sætinu. Mótið er sérstakt að því leiti að leiknir eru fimm keppnishringir en fresta þurfti upphafi keppninnar þar sem að næturfrost var á öllum fjórum keppnisvöllunum. Á þessu móti leika atvinnumenn í ráshóp með gestakylfingum sem eru áhugamenn og þekktir einstaklingar úr skemmtanaiðnaðinum.

Gleymdi pútternum

Töfin kom sér vel fyrir Allenby þar sem hann gleymdi pútternum í hótelherbergi sínu og fékk hann því tíma til þess að láta ná í pútterinn. „Ég var ekki með hugann við það sem ég átti að gera fyrir mótið og fékk þjálfara minn til þess að ná í pútterinn. Það kom sér vel því ég var að pútta gríðarlega vel,“ sagði Allenby en hann hitti allar brautir í upphafshöggum sínum og allar flatir í tilætluðum höggafjölda. Átta kylfingar eru þremur höggum á eftir Allenby og má þar nefna Bandaríkjamennina Scott Verplank og Jason Gore.

Margir fylgdust með Phil Mickelson frá Bandaríkjunum í gær enda hefur hann ekki leikið á atvinnumóti frá því í Ryderkeppninni á Írlandi í september á síðasta ári. Mickelson lék á 70 höggum eða tveimur höggum undir pari vallar. Hann er eini kylfingurinn sem er á meðal 30 efstu á heimslistanum á þessu móti en hann fékk fugl á fyrstu holuna (-1) en síðan fékk hann tvo skolla (+1) og einn skramba (+2). Mickelson sigraði á þessu móti 2002 og 2004 en hann sigraði á Mastersmótinu á síðasta ári. „Ég get ekki verið ánægður með fyrsta hringinn. Ég var að slá mörg góð högg en ég var líka að slá mörg léleg golfhögg,“ sagði Mickelson.

Starfsmaður var alltaf fyrir

Allenby sagði að framkoma starfsmanns mótsins hefði komið sér á óvart en sá hafði umsjón með að uppfæra skorkort þar sem að upplýsingar um gang mála í ráshóp Allenby voru birt. „Hann koma alltaf til mín eftir að ég hafði fengið fugl og tók í höndina á mér. Ég veit ekki hvort þetta var skipulagt atriði til þess að trufla mig. Þessi starfsmaður var alltaf fyrir þegar ég ætlaði að slá boltann og ég þurfti að segja honum að færa sig í hvert einasta sinn sem ég sló boltann. Þetta var skemmtilegur dagur á golfvellinum,“ sagði Allenby.

Kanada var ánægður með að fá tækifæri til þess að leika með hnefaleikakappannum Oscar de la Hoya en þeir verða í sama ráshóp fyrstu fjóra dagana. Kanada hefur ekki verið á PGA-mótaröðinni frá árinu 2001 en hann varð í 11. sæti á peningalista Nationwide mótaraðarinna á síðasta ári og fékk þar með keppnisrétt á PGA-mótaröðinni á ný.

Staðan á mótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert