Bandaríski kylfingurinn Mark Wilson, sem sigraði á Honda meistaramótinu í Flórída í gær eftir fjögurra manna bráðabana, dæmdi tvö vítishögg á sjálfan sig á öðrum keppnisdegi mótsins. Og þótti Wilson sýna heiðarleika og hinn sanna íþróttaanda í því tilviki. Wilson útskýrði fyrir fréttamönnum í gær hvað hefði gerst en fáir áttuðu sig á því hvað gerðist í raun og veru. Í golfreglunum er kylfingum bannað að gefa öðrum kylfingum upplýsingar um hvaða kylfu þeir hafi notað við högg en Wilson heyrði kylfusvein sinn gefa Camilo Villegas slíkar upplýsingar.
Mikilvæg regla
„Þessi regla er mikilvæg í mínum huga og þrátt fyrir að kylfusveinn minn hafi aðeins reynt að vera kurteis í þetta skiptið þá gat ég ekki annað en tilkynnt dómara hvað hefði gerst og dæmt á mig tvö vítsihögg. Þetta var í raun saklaust atvik. Ég sló högg með björgunarkylfu og Camilo var fyrir aftan mig með sínum kylfusvein og ég heyrði að hann var að velta því fyrir sér með hvaða kylfu ég hafði slegið. Þeir töldu líklegast að ég hefði slegið með 2 eða 3 járni og Chris Jones aðstoðarmaður minn snéri sér við eftir höggið og leiðrétti þá. „Þetta er 18 gráðu björgunarkylfa,“ var það eina sem hann sagði en ég vissi að hann hafði brotið golfreglurnar með því að gefa upp þessar upplýsingar. Ég ákvað að ljúka við holuna áður en ég gerði dómaranum viðvart. Dómarinn var ekki viss um að þetta væri brot á reglum en eftir að hafa hugsað sig um í stutta stund ákvað hann að um tvö vítishögg væri að ræða,“ sagði Wilson í gær.
Með tárin í augunum
Atvikið átti sér stað á 5. braut og sagði Wilson að aðstoðarmaður hans hefði verið með tárin í augunum á næstu tveimur brautum. „Við sögðum ekki mikið á þeim tíma en ég held að ég hafi gert rétt. Ég hefði aldrei getað setið og horft á verðlaunagripinn á heimili mínu vitandi að ég hefði haft rangt við,“ sagði Wilson en hann fékk um 70 millj. kr. fyrir sigurinn á mótinu og keppnisrétt í tvö ár á PGA-mótaröðinni. Hann hefur átt erfitt með að festa sig í sessi á mótaröðinni og alls hefur hann 10 sinnum farið í gegnum úrtökumótið fyrir PGA-mótaröðina.