Zach Johnson sigraði á Mastersmótinu í golfi

Zach Johnson.
Zach Johnson. Reuters

Zach Johnson sigraði á Mastersmótinu í golfi en þetta er í fyrsta sinn sem hann nær að sigra á stórmóti. Johnson lék samtals á einu höggi yfir pari vallar. Þetta er aðeins í þriðja sinn sem hann tekur þátt á Mastersmótinu en hann endaði í 32. sæti í fyrra. Á lokahringnum fékk Johnson sex fugla (-1) og þrjá skolla (+1) og endaði hann á 69 höggum eða þremur höggum undir pari. Johnson lék gríðarlega vel á síðari 9 holunum í dag þar sem hann fékk fugl (-1) á 13., 14., og 16. braut.

Tiger Woods, Rory Sabbatini og Retief Goosen voru jafnir í öðru sæti á 3 höggum yfir pari vallar samtals.

Johnson lék á 71 höggi eða einu höggi undir pari á fyrsta keppnisdegi og á 73 höggum á öðrum keppnisdegi. Fáir áttu von á því að Johnson myndi blanda sér í baráttuna um sigurinn eftir að hann lék á 76 höggum eða fjórum höggum yfir pari vallar á þriðja og næst síðasta keppnisdegi.

Zach Johnson er fæddur árið 1976 í Iowa í Bandaríkjunum og sem barn og unglingur lék hann á Elmcrest-golfvellinum í Cedar Rapids. Hann lék með háskólaliði Drake og gerðist atvinnukylfingur árið 1998. Árið 2003 endaði hann í efsta sæti peningalistans á Nationwide mótaröðinni sem er sú næst stærsta í Bandaríkjunum og tryggði hann sér keppnisrétt á PGA-mótaröðinni. Árið 2004 sigraði hann á BellSouth meistaramótinu og er það eina mótið á PGA-mótaröðinni sem hann hefur unnið. Johnson var í Ryderliði Bandaríkjanna s.l. haust á K-Klub á Írlandi og var það í fyrsta sinn sem hann lék með bandaríska úrvalsliðinu.

Staðan á mótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert