Golden State Warriors kom verulega á óvart í nótt með því að leggja Dallas Mavericks að velli í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA-deildinni í körfuknattleik. Warriors var í 8. sæti Vesturdeildar en Dallas er með besta árangur allra liða í deildinni í vetur. Leikurinn fór fram í Dallas og heimaliðið skoraði 85 stig gegn 97 stigum Warriors. Baron Davis skoraði 33 stig fyrir Warrios, en hann tók að auki 14 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.
Stephen Jackson skoraði 12 af alls 23 stigum sínum í leiknum í fyrsta leikhluta og Jason Richardson bætti við 13 stigum fyrir gestina. Warriors virðist hafa gott tak á Dallas því í sjö af síðustu átta viðureignum þeirra hefur Golden State Warriors haft betur.
Josh Howard skoraði 21 stig fyrir Dallas og tók hann 13 fráköst. Devin Harris var með 19 stig fyrir Dallas en liðið var aðeins með 35% skotnýtingu.
Dirk Nowitzki, sem margir telja besta leikmann NBA-deildarinnar, hitti aðeins úr 4 af alls 16 skotum sínum í leiknum og skoraði Þjóðverjinn aðeins 14 stig.
Denver Nuggets hafði betur á útivelli gegn San Antonio Spurs í fyrstu umferð Vesturdeildar, þar sem Carmelo Anthony og Allen Iverson fóru fyrir liði Denver í sóknarleiknum. Iverson skoraði alls 31 stig í leiknum og Anthony bætti við 30 stigum. Tim Duncan, skoraði aðeins 14 stig fyrir Spurs.