Staðan á mótinu. Skorkort Birgis. ">
Birgir Leifur Hafþórsson hefur lokið við allar átján holurnar á öðrum keppnisdegi BA-CA-meistaramótsins í golfi á Evrópumótaröðinni og er hann á pari vallar í dag og samtals á einu höggi undir pari. Birgir byrjaði á því að fá tvo fugla í röð, á 1. og 2. braut en hann fékk skolla á 7. og 8. braut. Hann náði þriðja fuglinum á 15. braut en fékk aftur skolla á þeirri 17. Birgir er í 44.-60. sæti þessa stundina en enn eru nokkrir leikmenn að spila. Hann virðist vera nokkuð öruggur með að komast í gegnum niðurskurðinn en þeir kylfingar sem eru á parinu komast sennilega í gegn.
Staðan á mótinu. Skorkort Birgis. Hinn ástralski Richard Green er með forystu í mótinu en hann er á 11 höggum undir pari eftir daginn í dag. Svíinn Martin Erlandsson er skammt undan á 10 höggum undir pari. Gary Houston frá Wales jafnaði vallarmetið á Fontana vellinum í dag en hann lék á 63 höggum, 8 höggum undir pari, en hann er samtals á 7 höggum undir pari þar sem hann lék á 72 höggum í gær.
Helstu skrautfjaðrir mótsins, Skotinn Colin Montgomerie og Darren Clarke eru ekki að leika vel á þessu móti. Montgomerie lék á þremur höggum yfir pari í morgun og er hann samtals á 5 höggum yfir pari eftir 36 holur. Clarke, sem er frá N-Írlandi, lék á tveimur höggum yfir pari í gær. Spánverjinn Miguel Angel Jimenez leikur hins vegar við hvern sinn fingur og er á 9 höggum undir pari.