Birgir fékk 1,2 millj. kr í verðlaunafé

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. mbl.is

Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur úr GKG var í miklu stuði á lokahring opna Telecom mótsins í Austurríki á evrópsku mótaröðinni í dag. Birgir lék á 67 höggum eða fjórum undir pari vallarins. Hann endaði í 21.- 27. sæti á samtals 8 undir pari en þetta er næst besti árangur Birgis á mótaröðinni. Hann náði 11. sæti á móti á Ítalíu á dögunum sem er hans besti árangur. Birgir fékk um 1,2 millj. kr. fyrir árangurinn og fór hann upp um 9 sæti á peningalistanum en hann er í 155. sæti á þeim lista.

Birgir þarf að vera í einu af 116 efstu sætum peningalistans í lok keppnistímabilsins til þess að halda keppnisréttinum á Evrópumótaröðinni. Hann hefur fengið um 5,6 millj. kr. í verðlaunafé á þessu tímabili.

Richard Green frá Ástralíu sigraði á mótinu en hann hafði betur gegn Frakkanum Jean-Francois Remesy í bráðabana um sigurinn en þeir voru báðir á 16 höggum undir pari eftir 72 holur. Green lék lokahringinn á 70 höggum þar sem hann fékk skolla á lokaholuna en par hefði dugað honum til sigurs. Remesy lék lokahringinn á 64 höggum. Chris Gane, Miguel Angel Jiminez og Michael Jonzon deildu þriðja sætinu á 15 höggum undir pari vallar.

Þetta er annar sigur Green á Evrópumótaröðinni en það er áratugur frá því hann sigraði síðast en árið 1997 vann hann Dubai meistaramótið eftir bráðabana gegn Ian Woosnam og Greg Norman. Staðan á mótinu. Skorkort Birgis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert