Birgir Leifur Hafþórsson lék á einu höggi undir pari vallar á fyrsta keppnisdegi á Aa Saint Omer-meistaramótinu í golfi sem fram fer í Lumbres í Frakklandi. Birgir fékk þrjá fugla og tvo skolla á hringnum. Eins og staðan er þessa stundina er Birgir í 27.-44. sæti. Rangt skor var slegið inn á 10. braut á heimasíðu mótsins en þar var Birgir sagður hafa leikið á pari en hann fékk fugl.
Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi og einnig er fjöldi kylfinga á áskorendamótaröðinni (Challenge Tour) á meðal keppenda. Flestir af bestu kylfingum Evrópumótaraðarinnar eru að leika á opna bandaríska meistaramótinu á sama tíma og vantar því helstu skrautfjaðrir Evrópumótaraðarinnar á þetta mót í Frakklandi. Birgir lék vel um liðna helgi á móti sem fram fór í Austurríki en þar endaði hann í 21. sæti.