Írinn Padraig Harrington sigraði á Opna breska meistaramótinu í golfi á Carnoustie vellinum í Skotlandi í dag eftir umspil um sigurinn gegn Spánverjanum Sergio Garcia. Harrington fékk fugl á fyrstu holu í fjögurra holu umspili en Garcia fékk skolla. Þeir léku 16. og 17. brautirnar báðir á pari og Harrington var því með tveggja högga forskot fyrir 18. brautina. Þar tók hann enga áhættu og lék upp á að fá skolla og treysti á að Garcia næði ekki fugli og næði að jafna metin. Það tókst en þetta er í fyrsta sinn sem Harrington nær að sigra á stórmóti. Garcia var í efsta sæti mótsins fyrstu þrjá keppnisdagana en hann lék lokahringinn á 73 höggum eða 2 höggum yfir pari á meðan Harrington lék lokahringinn á 67 höggum eða 4 höggum undir pari.
Miklar sviptingar voru á lokadeginum en Harrington er fyrsti kylfingurinn frá Evrópu sem sigrar á stórmóti frá árinu 1999 þegar Skotinn Paul Lawrie sigraði á Opna breska meistaramótinu á Carnoustie.
Harrington fór illa að ráði sínu á lokaholunni þar sem hann sló tvívegis í vatnstorfæru en þrátt fyrir það náði hann að leika holuna á 6 höggum eða tveimur yfir pari. Garcia gat tryggt sér sigur á lokaholunni með því að fá par en annað högg hans fór í glompu við hlið flatarinnar. Garcia sló fallegt högg upp úr glompunni og átti um 2 metra pútt eftir fyrir pari sem hefði tryggt sigurinn. Það pútt fór rétt framhjá holunni.
Argentínumaðurinn Anders Romero fékk 10 fugla í dag og var hann um tíma efstur en hann gerði mistök á lokasprettinum og endaði hann á 6 höggum undir pari vallar.
Veðrið á lokadeginum var slæmt þegar kylfingar hófu leik í morgun en veðrið lagaðist mikið þegar á leið. Ástralinn Richard Green var nálægt því að bæta vallarmetið í dag en hann fékk einn skolla (+1) á hringnum og kom hann á 18. flöt. Green jafnaði vallarmetið með því að leika á 64 höggum eða 7 höggum undir pari vallar og er hann samtals á 5 höggum undir pari vallar.
Ben Curtis frá Bandaríkjunum var í miklu stuði á lokadeginum og lék hann á 6 höggum undir pari í dag og endaði hann mótið á samtals á 3 höggum undir pari.
Tiger Woods endaði á 2 höggum undir pari samtals. Gríðarleg úrkoma var í morgun á keppnissvæðinu en veðrið hefur lagast eftir hádegi og er hætt að rigna.