Björgvin Sigurbergsson fagnaði sigri á Íslandsmeistaramótinu í höggleik í golfi í dag á heimavelli sínum í Hafnarfirði en þetta er í fjórða sinn sem Björgvin er Íslandsmeistari í golfi. Það eru sjö ár síðan Björgvin vann titilinn síðast en hann varði titilinn árið 2000 en hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1995. Björgvin lék lokahringinn á einu höggi yfir pari eða 72 höggum og var hann einu höggi betri en Örn Ævar Hjartarson úr GS sem endaði í öðru sæti á 2 höggum yfir pari vallar. Ólafur Már Sigurðsson úr Keili varð þriðji á 4 höggum yfir pari samtals. Ólafur fékk hinsvegar frávísun fyrir að skrifa undir rangt skor að loknum þriðja keppnisdegi. Hlynur Geir Hjartarson úr GK endaði því í þriðja sæti á 6 höggum yfir pari vallar.
„Það er virkilega gaman að vinna titilinn aftur á heimavelli. Þetta var bara þrælgaman og fuglinn sem ég fékk á 17. braut með því að vippa boltanum ofaní var frábær,“ sagði Björgvin m.a. í sjónvarpsviðtali við SÝN eftir að hann hafði tryggt sér sigurinn. Björgvin lék síðustu holuna á skolla og tók hann enga áhættu í innáhögginu. „Ég var að velta því fyrir mér að slá of stutt fyrir framan tjörnina með 5-járni en ég ákvað fara alla leið inná með 4-járninu og það tókst.“
Ítarleg umfjöllun um Íslandsmótið í golfi verður á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.