Ólafur Már vill að frávísunin verði afturkölluð

Ólafur Már Sigurðsson.
Ólafur Már Sigurðsson. Sigurður Elvar

Ólafur Már Sigurðsson kylfingur úr Keili er ekki sáttur við úrskurð mótsstjórnar Íslandsmótsins í höggleik frá því í gær en Ólafur fékk frávísun fyrir að hafa brotið reglu 20-2. Ólafur Már fer fram á að mótsstjórnin afturkalli frávísunina og láti það koma fram opinberlega að honum hafi verið ranglega vísað úr keppni og engar reglur brotið.

Ólafur Már sendi mótsstjórn Íslandsmótsins bréf í gær þar sem hann rekur gang mála vegna frávísunarinnar og telur kylfingurinn að úrskurður um frávísun hafi verið rangur.

Golfsambandið fer yfir mál Ólafs Más í dag en Hlynur Geir Hjartarson úr Keili fékk bronsverðlaunin í gær eftir að Ólafi Má var vísað úr keppni.

Hér er bréf Ólafs Más til mótsstjórnar. :

Til mótsstjórnar Íslandsmótsins í golfi

Hr. Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ

Í dag (í gær) fékk ég frávísun úr Íslandsmótinu í golfi fyrir að hafa brotið reglu 20-2 með því að þrídroppa á 1. (10. braut). Mótstjórn kallaði mig til og spurði hvort ég hefði þrídroppað sem ég kannaðist við. Ritari minn Örn Ævar Hjartarson, mun hafa verið spurður hins sama, og mun hann hafa staðfest að ég hafi þrídroppað. Málið var ekki kannað frekar eftir því sem ég best veit.

Atvikin voru þau að ég átti lausn frá veginum á 1. (10. braut). Ég ákvarðaði lausnarstað og lét boltann síðan falla á tiltekinn stað sem ég valdi sem ég vildi slá frá. Þegar boltinn hafði rúllað óleyfilega nærri holu eftir droppið í tvö fyrstu skiptin ætlaði ég að leggja hann á staðinn sem ég hafði valið og droppað á. Örn Ævar benti mér þá á að ég ætti að droppa þrisvar áður en ég mætti leggja boltann. Ég gerði það og lét boltann falla í þriðja sinn á sama stað, tók hann síðan upp og lagði hann þar og lék honum þaðan, enda hafði boltinn í þriðja sinnið, rétt eins og í fyrri skiptin ekki stoppað á löglegum stað. Ég lék boltanum síðan af þessum stað og hugsaði ekki meira um málið fyrr en ég er kallaður til mótsstjórnar í mótslok og og vísað úr keppninni fyrir að hafa þrídroppað eins og það var kallað.

Áður hafði Haukur Jónsson, GK fengið frávísun fyrir að hafa þrídroppað, en það mun hafa sést í beinni útsendingu Sýnar á laugardeginum. Annað veit ég ekki um mál Hauks. Ég geri því ráð fyrir að einhver hafi kært mig og mótstjórnin hafi viljað láta eitt yfir alla ganga.

Ég hef í kvöld skoðað þetta mál og sé við skoðun að ákvörðun mótsstjórnar er ekki í samræmi við golfreglurnar. Það er ekkert víti fyrir að þrídroppa. Samkvæmt reglu 20-6 skal við þær aðstæður leikið án vítis sé boltinn lagður á réttan stað eins og gerðist í mínu tilviki. Víti getur aðeins stofnast ef boltanum er leikið frá röngum stað, en það gerðist ekki í mínu tilviki.

Það er meira að segja til úrskurður (decision) sem tekur á þessu máli. Úrskurðurinn er svohljóðandi:

20-2c/2 Ball Dropped Third Time When Placement Required After Second Drop.

Q. A player dropped his ball twice under a Rule and each time the ball rolled nearer the hole. He then dropped the ball a third time instead of placing it as required by Rule 20-2c. What is the ruling?

A. Before playing a stroke, the player may lift the ball and place it as prescribed in rule 20-2c, without penalty (Rule 20-6). If he fails to do so and plays the ball, he incurs a penalty of loss of hole in match play or two strokes in stroke play for breach of Rule 20-2c.

Ég legg til að mótsstjórn hafi samband við Örn Ævar og kanni hjá honum hvort ekki sé rétt frá greint hjá mér. Að því loknu fer ég fram á að mótsstjórnin afturkalli frávísunina og láti það koma fram opinberlega að mér hafi ranglega verið vísað úr keppni og ég hafi engar reglur brotið.

Það skiptir mig máli að þetta gerist strax þannig að ég þurfi ekki að sitja undir því að hafa ekki fylgt golfreglunum í Íslandsmótinu í golfi og því verið vísað úr keppni.

Með kveðju, Ólafur Már Sigurðsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert