Vignir sigraði á Einherjamótinu á Urriðavelli

mbl.is

Vignir G. Hlöðversson úr GKG sigraði á Einherjamótinu sem fram fór s.l. sunnudag en þeir sem hafa farið holu í höggi eru með keppnisrétt á mótinu. Vignir fékk 39 punkta á Urriðavelli en um 90 kylfingar tóku þátt og er það met. Kristinn Jóhannsson, GR, varð annar á 36 punktum, Kolbrún Jónsdóttir GKG var einnig með 36 punkta, Pétur Georg Guðmundsson, GR fékk einnig 36 punkta.

Þetta var í fertugasta sinn sem mótið er haldið og jafnframt í fertugasta sinn sem Einherjabikarinn er afhentur. Í tilefni þess afhenti Jón Þór Ólafsson úr GR, sigurvegaranum Einherjabikarinn en Jón var sá fyrsti sem lyfti þeim grip á loft árið 1967. Enginn fór holu í höggi í mótinu en næst því komust þeir Eggert Ísfeld á 15.braut sem var rétt um 1 m. frá holunni og Pétur Georg Guðmundsson sem var 42 cm. frá holu á 8. braut.

Glæsileg verðlaun voru í mótinu og fengu átta fyrstu verðlaun.

Auk þess voru veitt tvenn nándarverðlaun og í mótslok var dregið úr skorkortum.

Margir góðir aðilar styrktu Einherjaklúbbinn í þessu móti.

Voru það Kaupþing, N1, Globus, Brimborg, Nevada Bob,Mekka h/f, Golfbúðin Dalshrauni og Rolf Johansen & c/o.

Þakkar Einherjaklúbburinn þeim frábæran stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert