Sabbatini skrefi nær 660 millj. verðlaunapotti

Rory Sabbatini.
Rory Sabbatini. Reuters

Rory Sabbatini frá S-Afríku er efstur að loknum fyrsta keppnisdegi á Barclays-meistaramótinu í golfi á PGa-mótaröðinni en hann lék á 63 höggum eða 8 höggum undir pari. Mótið er það fyrsta af fjórum í úrslitakeppni PGA-mótaraðarinnar, FedEx-keppninni, en sigurvegarinn í úrslitakeppninni fær um 660 millj. kr. í sinn hlut. Sabbatini sagði að aðstæður á vellinum hefðu boðið upp á gott skor. "Þetta var eins og í pílukasti, vindurinn var ekki að hafa áhrif á boltann og brautir og flatir eru mjúkar," sagði Sabbatini í gær. K.J. Choi frá S-Kóreu fékk einnig 8 fugla líkt og Sabbatini en Choi fékk einnig einn skolla og er hann því á 7 höggum undir pari líkt og Rich Beem frá Bandaríkjunum.

Ernie Els frá S-Afríku, sem tvívegis hefur sigrað á þessu móti, lék á 65 höggum líkt og Bandaríkjamennirnir Brian Gay, Steve Flesch og Svíinn Carl Pettersson.

Forsvarsmenn PGA-mótaraðarinnar eru vongóðir um að næstu fjögur mót á mótaröðinni veki mikla athygli. Í fyrsta sinn í sögu PGA verður um úrslitakeppni að ræða, líkt og í öðrum stórum atvinnudeildum vestanhafs. Gríðarlega mikið verðlaunafé er í boði fyrir sigurvegarann í Fed-Ex-úrslitakeppninni en sigurvegarinn fær um 660 millj. kr. í sinn hlut eða 10 milljón Bandaríkjadali. Fyrsta mótið hefst í dag en það eina sem vantar er að efsti kylfingur heimslistans, Tiger Woods, mætir ekki til leiks.

Frá því að keppnistímabilið á PGA-hófst hinn 4. janúar s.l. hafa kylfingar safnað stigum fyrir úrslitakeppnina og 144 stigahæstu kylfingarnir fá þátttökurétt á fyrsta mótinu í úrslitakeppninni sem hefst á fimmtudag, Barclays-meistaramótinu. Að því móti loknu fá 120 þeir stigahæstu keppnisrétt á Deutsche Bank-meistaramótinu sem fram fer 31. ágúst-3. september. Dagana 6.-9. september fer fram BMW-meistaramótið og þar verða aðeins 70 stighæstu kylfingarnir og á fjórða og síðasta mótinu, Tour-meistaramótinu, verða aðeins 30 stighæstu kylfingarnir en það mót fer fram 13.-16. september. Sá kylfingur sem safnar flestum Fed-Ex stigum á næstu fjórum mótum stendur uppi sem sigurvegari. Það skiptir því ekki öllu máli að landa sigri á lokamótinu, því heildarstigafjöldinn er mikilvægastur.

Stigin lækkuð hjá Woods

Það kemur fáum á óvart að Tiger Woods er efstur á Fed-Ex stigalistanum en bandaríski kylfingurinn hefur tekið þá ákvörðun að vera ekki með á fyrsta mótinu í úrslitakeppninni.

Woods er með 100,000 stig þessa stundina en Vijay Singh frá Fijí er með 99,000 stig. Bandaríkjamaðurinn Jim Furyk er þriðji með 98,5 stig og landi hans Phil Mickelson er með 98,000 stig. S-Kóreumaðurinn K.J. Choi er fimmti með 97,500 stig. Woods var reyndar með mikla yfirburði á stigalistanum en samkvæmt reglum keppninnar voru stig kylfinga "lækkuð" fyrir upphafsmótið til þess að gera mótahaldið meira spennandi. Á hverju móti í úrslitakeppninni eru 50.000 stig í pottinum og sigurvegarinn fær 9.000 stig.

Á lokamótinu fær sigurvegarinn 10.300 stig og er ljóst að Woods verður langt á eftir þegar annað mótið hefst eftir rúma viku.

Það er ekki aðeins sigurvegarinn sem fái vel borgað úr verðlaunapottinum. Annað sætið gefur af sér um 200 millj. kr. og þriðja sætið 132 millj. kr.

Staðan á mótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka