Björn Halldórsson úr GS og Pétur Óskar Sigurðsson úr GR léku sér að Garðavelli á Akranesi á sunnudaginn á Holiday Invest golfmótinu þar sem þeir sigruðu á 12 höggum undir pari. Á mótinu var leikið með "Texas Scramble" fyrirkomulagi. Í slíkri keppni er leikið í tveggja manna liðum og geta kylfingar ávallt valið betra höggið á 18. holu hring. Skor liða getur því verið lágt þar sem að hægt er að leika djarft án þess að það komi niður á skorinu. Pétur og Björn eru báðir afrekskylfingar en Björn er með 1,7 í forgjöf og Pétur 1,1. Á fyrri 9 holunum léku þeir á 8 höggum undir pari þar sem þeir fengu fugl (-1) á 1., 2.,5., 6., 7. og 9. braut. Á 4. braut fengu þeir örn en þar léku þeir par 5 holu á aðeins 3 höggum. Á síðari 9 holunum fengu þeir fugl á 10., 12., 13., 16. og 18. braut. Björn og Pétur voru aðeins höggi frá því að leika völlinn á 59 höggum en þeir fengu skolla (+1) á 15. braut vallarins. Þeir fengu því 9 fugla, 1 örn, 1 skolla og 5 pör.
Heimir Fannar Gunnlaugsson GL og Guðjón Karl Þórisson GKj. enduðu í öðru sæti á 62 höggum. Í þriðja sæti voru þeir Hróðmar Halldórsson GL og Stefán Orri Ólafsson GL á 64 höggum.