Birgir Leifur Hafþórsson fékk óvænt þátttökurétt á opna Mallorca meistaramótinu í golfi sem hefst á fimmtudaginn en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Birgir var á meðal þeirra sem voru á biðlista fyrir mótið og voru litlar líkur á því að hann fengi að taka þátt en þegar listinn var uppfærður í dag kom í ljós að Birgir var sá síðasti í röðinni sem fékk keppnisrétt. Það líður nú að lokum keppnistímabilsins á Evrópumótaröðinni en Birgir er í 184. sæti peningalistans.
Hann þarf að sigra á mótinu á Mallorca til þess að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili.
Birgir Leifur þarf eins og staðan er í dag að leika á 2. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina en það mót hefst þann 7. nóvember á Spáni. Aðeins 115 efstu á peningalistanum fá að halda keppnisrétti sínum á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili.
Sænski kylfingurinn Niclas Fasth hefur titil að verja á mótinu sem fram fer á Pula golfvellinum. José Maria Olazábal frá Spáni sigraði á þessu móti árið 2005 en hann er sá sem skipulagði og hannaði keppnisvöllinn á Mallorca.
Olazábal er eini kylfingurinn sem hefur afrekað það að standa uppi sem sigurvegari á velli sem hannaður var af kylfingnum sjálfum á Evrópumótaröðinni.