Els og Westwood eru ósáttir

Ernie Els.
Ernie Els. Reuters.

Ernie Els frá Suður-Afríku og enski kylfingurinn Lee Westwood hafa gagnrýnt forsvarsmenn Evrópumótaraðarinnar fyrir að hafa sofið á verðinum þegar keppnisdagskrá tímabilsins var sett upp s.l. haust. Els og Westwood verða ekki með á lokamóti Evrópumótaraðarinnar, Volvo-meistaramótinu, sem hefst á Valderama vellinum á morgun á Spáni. Fjarvera Els þykir vandræðaleg fyrir forsvarsmenn Evrópumótaraðarinnar þar sem hann er í efsta sæti peningalistans.

Els og Westwood verða á meðal keppenda á stórmóti Asíumótaraðarinnar á sama tíma en þeir höfðu gert ráð fyrir að þessi tvö mót myndu ekki fara fram á sama tíma. Els er efstur á peningalista Evrópumótaraðarinnar en Padraig Harrington frá Írlandi er þar skammt á eftir. „Ég er búinn að skuldbinda mig til þess að leika á Barclays-meistaramótinu í Singapúr næstu þrjú árin. Á þeim tíma þegar sú ákvörðun var tekin voru þessi mót ekki á dagskrá á sama tíma. Það var einhver sem gerði mistök þegar Volvo-meistaramótinu var raðað niður á þessum tíma. Ég hefði að sjálfsögðu viljað taka þátt en ég vil ekki brjóta það samkomulag sem ég var búinn að gera,“ sagði Els. Westwood er í sömu aðstöðu en hann gerði svipað samkomulag og Els. Það eru fleiri kylfingar sem verða í Singapúr en ekki á Spáni. Angel Cabrera frá Argentínu, sem sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu, en hann er sjötta sæti peningalistans á Evrópumótaröðinni. Norður-Írinn Darren Clarke, er einnig fjarri góðu gamni á Valderama, en hann verður á meðal keppenda á Singapúr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert