Birgir Leifur ætlar sér að komast alla leið

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Reuters

Birgir Leifur Hafþórsson lék vel í dag á öðrum keppnisdegi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi á Arcos Gardens-vellinum á Spáni. Birgir lék á fjórum höggum undir pari eða 68 höggum en í gær var hann á pari vallar eða 72 höggum. Hann er í 5.-6. sæti þegar keppni er hálfnuð en 19 efstu af þessum velli komast áfram á lokaúrtökumótið. „Ég er að sjálfsögðu sáttur við það sem ég var að gera í dag. Ég fékk fimm fugla og einn skolla. En það er mikið eftir og ég verð að halda áfram á sömu braut næstu tvo daga,“ sagði Birgir við mbl.is í dag. Hann sagði að aðstæður hefðu boðið upp á betra skor hjá keppendum. „Það var mikið rok í gær en í dag var veðrið mjög gott. Nánast logn og um 25 stiga hiti.“

Staðan á mótinu.

Alls eru 308 kylfingar sem taka þátt á 2. stigi úrtökumótsins og aðeins 74 þeirra komast áfram á lokaúrtökumótið. Á Arcos Gardens vellinum komast 19 efstu áfram á lokaúrtökumótið. Birgir segir að það sé mikil spenna í loftinu enda sé allt lagt undir á þessum úrtökumótum.

„Ég held að það sé alveg sama hvort um er að ræða 2. eða 3. stig úrtökumótsins. Það er mikið lagt undir. Og margir eru frekar stressaðir yfir þessu öllu saman. Ég hef farið í gegnum þessa rútínu á hverju ári frá árinu 1997 og ég veit hvað þarf til þess að komast alla leið. Ég er staðráðinn í því að komast í hóp efstu manna á lokaúrtökumótinu,“ bætti Birgir við.

Birgir komst í gegnum 2. og 3. stig úrtökumótsins í fyrra og endaði í hópi 35 efstu á lokaúrtökumótinu sem tryggði honum keppnisrétt á 18 mótum á Evrópumótaröðinni á þessu ári.

Frá árinu 1997 hefur Birgir Leifur tekið þátt á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina en það var í fyrsta sinn í fyrra sem hann náði að vera á meðal 35 efstu á lokaúrtökumótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert