Mickelson gefur ekkert eftir í Kína

Phil Mickelson.
Phil Mickelson. Reuters.

Phil Mickelson er með tveggja högga forskot fyrir lokadaginn á HSBC-meistaramótinu í golfi sem fram fer í Kína en mótið er samstarfsverkefni fjögurra mótaraða. (Evrópu, Asíu, Ástralíu/Asíu og Suður-Afríku). Mickelson, sem er annar á heimslistanum, hefur ekki sigrað á móti utan Bandaríkjanna í 14 ár en hann lék á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari í dag og er hann samtals á 14 höggum undir pari.

Ross Fisher frá Englandi er annar á 12 höggum undir pari og Paul Casey sem er einnig enskur er á 11 höggum undir pari en Casey lék best allra í dag eða á 66 höggum.

Bandaríkjamaðurinn Kevin Stadler, sem var efstur fyrstu tvo keppnisdagana, er í fjórða sæti eftir að hafa leikið á 73 höggum í dag en hann er fjórum höggum á eftir Mickelson.

Margir þekktir kylfingar eru á þessu móti. Sigurvegari Opna breska meistaramótsins, Padraig Harrington frá Írlandi, er á 7 höggum undir pari líkt og Vijay Singh frá Fijí. Yang Yong-Eun frá Suður-Kóreu hefur titil að verja á þessu móti og er hann á 7 höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert