„Þetta er sama gamla tuggan. Nóg eftir af þessu móti og allt getur gerst. Mér líður vel og ég var mjög sáttur við fyrsta hringinn. Vissulega fékk ég þrjá skolla, þar sem ég fékk eitt víti, og þrípúttaði eina flöt. Að öðru leyti er allt á sínum stað og ég er með skýr markmið. Að komast í hóp 30 efstu,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson við mbl.is en hann er á einu höggi undir pari sem skilar honum í 30.-59. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar.
Alls eru 156 keppendur á þessu móti og aðeins 30 efstu fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili.
Birgir lék á 71 höggi á gamla vellinum á San Roque golfsvæðinu eða einu höggi undir pari en á morgun leikur hann á nýja vellinum. „Það er mikill munur á þessum tveimur völlum. Sá sem ég lék í dag er eldri og brautirnar eru þrengri og það er mikið af trjám og vötnum. Á þeim nýja, sem ég leik á morgun, eru aðstæður öðruvísi. Völlurinn minnir frekar á strandvöll og það er minna af trjám og völlurinn er „opnari“. Hinsvegar eru flatirnar á þeim velli mun harðari og erfiðara að láta boltann stöðvast á flötunum. Ég veit ekki hvort það er merkjanlegur munur á þessum völlum þegar litið er á skor keppenda en ég held samt að menn hafi yfirleitt náð betra skori á nýja vellinum,“ bætti Birgir við en hann fer af stað á morgun kl. 10:20 að spænskum tíma eða 9:20 að íslenskum tíma.
Margir þekktir kappar
„Það eru margir þekktir kappar á lokaúrtökumótinu og einhverjir þeirra eru eflaust að hugsa um hvað í fjandanum þeir eru að gera á þessu stigi. Peter Senior frá Ástralíu, Andrew Oldcorn frá Skotlandi, Andrew Coltard einnig frá Skotlandi, Joakim Haeggman frá Svíþjóð og einhverjir fleiri. Þetta eru allt kylfingar sem hafa náð fínum árangri á Evrópumótaröðinni en eru núna í þessari stöðu að þurfa að sanna sig. Svona er þetta bara,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson.