Birgir Leifur Hafþórsson tryggði sér í dag keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í golfi á næsta keppnistímabili en hann lék sjötta hringinn á pari vallar og endaði á 5 höggum undir pari. „Ég held að ég hafi aldrei verið eins stoltur af sjálfum mér og núna. Það var margt sem gekk á hjá mér á lokahringnum en ég sló tvö frábær högg á 16. braut sem tryggðu fugl og síðan kom högg dagsins á 17. braut þar sem ég vippaði ofaní fyrir fugli á par 3 braut. Þá vissi ég að þetta var í höfn og ég er afar stoltur að hafa náð að tryggja mér sæti á Evrópumótaröðinni á ný,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson við mbl.is rétt í þessu.
Birgir endaði 11.-15. sæti sem er besti árangur hans frá upphafi á lokaúrtökumótinu en 30 efstu fengu keppnisrétt á næst stærstu mótaröð heims.
Skorkort Birgis var skrautlegt í dag en hann var nánast búinn að missa af lestinni þegar 7 holur voru búnar en hann náði að snúa taflinu sér í hag á lokaholunum. Þetta er annað árið í röð sem Birgir nær að vera á meðal 30 efstu á lokaúrtökumótinu en þetta var 11. árið í röð sem hann leikur á úrtökumótinu.
Pútterinn var ískaldur
Hann sagði að aðstæður á San Rouge hafi verið erfiðar í dag, mikið rok og skúrir af og til. „Ég held að veðrið hafi verið verra í dag en það var á lokadeginum í fyrra og þá þótti mönnum það slæmt. Það sem að stendur upp úr er að ég næ að komast í gegnum þetta maraþongolfmót þrátt fyrir að pútterinn hafi verið „ískaldur“ síðustu þrjá hringina. Ég veit ekki hve mörg pútt stoppuðu alveg við holu eða fór rétt framhjá. Og þess vegna er ég enn ánægðari með árangurinn því ég veit að ég á mikið inni.“
Verð örugglega alveg tómur í kvöld
Birgir verður á San Rouge svæðinu fram á sunnudag en hann ætlar að eyða tímanum með viðskiptavinum Kaupþings á næstu dögum og leika með þeim golf. „Það verður dræver á öllum brautum og líka á par 3 brautunum á þeim dögum. Ég verð örugglega alveg tómur í kvöld enda er þetta gríðarlegt andlegt álagt sem fylgir því að leika 6 keppnisdaga í röð.“
Byrjar á mótunum í Suður-Afríku í desember
Birgir hefur ekki sett upp mótadagskránna hjá sér á Evrópumótaröðinni en hann býr að þeirri reynslu sem hann fékk í fyrra. „Ég ætla að fara niður til Suður-Afríku á mótin sem eru þar í desember en ég hugsa að ég það sé ekkert vit í því að fara á mótið í næstu viku sem er á Nýja-Sjálandi. Ég ætla að spila á öllum þeim mótum sem standa mér til boða líkt en ég náði 18 mótum á síðasta tímabili og sleppti aðeins tveimur mótum sem ég gat leikið á. Þegar ég verð búinn að fara yfir stöðuna með mínum samstarfsaðilum set ég upp þétta dagskrá fyrir næsta tímabil og ég er ótrúlega glaður að fá tækifæri til þess að sýna mig og sanna á Evrópumótaröðinni,“ sagði Birgir en nánar verður rætt við hann í Morgunblaðinu á morgun.
Birgir hóf leik á 1. teig í morgun á nýja hluta San Rouge vallarins á Spáni.
Hann fékk fugl á 2. braut sem er par 5 en hann fékk skolla á 6. braut og á 7. braut fékk hann skramba (+2). Hann fékk fjögur pör í röð á 8., 9., 10. og 11. braut en hann fékk nfugl á 12. braut.
Á 13. braut fékk hann par en á 14. gerði hann mistök og lék á einu höggi yfir pari.
Íslenski atvinnukylfingurinn lagaði stöðu sína töluvert með því að fá tá vo fugla í röð á 16. og 17. braut. Hann gerði engin mistök á lokaholunni sem hann lék á pari.
Birgir er því á 5 höggum undir pari samtals.
Þeir kylfingar sem enda í 30 efstu sætunum fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinn á næsta tímabili. Flestir þeirra fá þátttökurétt á um 20 mótum en mótin á Evrópumótaröðinni eru rúmlega 50 á hverju ári.
Þeir kylfingar sem enda í 31.-71. sæti á lokaúrtökumótinu fá keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni sem er næst stærsta atvinnumótaröðin í Evrópu. Að auki fá þessir kylfingar keppnisrétt á nokkrum mótum á Evrópumótaröðinni.
Birgir lék á 18 mótum á Evrópumótaröðinni á síðasta keppnistímabili en hann endaði í 184. sæti á peningalistanum með 6,7 milljónir kr. í verðlaunafé. Besti árangur hans var 11. sætið á opna ítalska meistaramótinu.
Á lokaúrtökumótinu í fyrra var Birgir fjórum höggum frá því að vera í hópi 30 efstu fyrir lokahringinn. Hann náði að vinna sig upp í 25. sætið á lokaholunum og tryggði hann sér þar með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni - fyrstu íslenskra karlkylfinga. Ólöf María Jónsdóttir úr GK var fyrsti íslenski kylfingurinn sem náði að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í golfi.